144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

betrun í fangelsum og aðstoð að lokinni afplánun.

586. mál
[18:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ýmislegt er að gerast á Íslandi í fangelsismálum. Nýtt fangelsi er í smíðum sem og frumvarp til nýrra laga um fullnustu refsinga. Það veldur hins vegar vonbrigðum að lítið virðist gerast í betrunarmálum. Nýtt fangelsi á Hólmsheiði er ekki til þess fallið að tryggja aukna betrun enda er um öryggisfangelsi að ræða en ekki fangelsi af þeirri gerð þar sem unnið er eftir leiðum sem ætlaðar eru til að tryggja betrun fanga. Einnig er ljóst miðað við fjármögnun byggingar nýs öryggisfangelsis að fjárveitingar til betrunarvistar eru ekki fyrir hendi.

Í frumvarpi að nýjum lögum um fullnustu refsinga er heldur ekki að marka stefnubreytingu í átt til betrunar. Það hefði legið vel við og liggur kannski enn vel við að koma hér á fót betrunarstefnu eins og nágrannaríki okkar hafa gert og þá ekki síst Noregur.

Í Noregi er lögð höfuðáhersla á betrun. Þar er lögð áhersla á að fangar geti ýmist unnið eða menntað sig og allt utanumhald þar að lútandi er til fyrirmyndar. Norðmenn eru með lægstu endurkomutíðni í Evrópu og því vil ég gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvort ekki sé tilefni til að líta til hinna Norðurlandaþjóðanna í betrunarmálum. Markmiðið með betrun er að sjálfsögðu að menn séu betur í stakk búnir að lifa og starfa í samfélaginu þegar þeir koma út úr fangelsi en þegar þeir fóru inn. Þetta snýst m.a. um að virkja fangann, meta hegðun hans og koma á sterkari böndum við fjölskyldu og samfélagið.

Annar mikilvægur þáttur sem menn hafa áttað sig á í Noregi og í Danmörku er mikilvægi þess að hlúð sé að föngum þegar þeir koma út úr fangelsi. Í Danmörku hafa verið gerðir samningar við sveitarfélög en í Noregi við frjáls félagasamtök eins og Hjálpræðisherinn sem tryggja að enginn fangi sé án húsnæðis og lífsviðurværis þegar hann kemur úr fangelsi. Þannig halda betrunarúrræðin áfram fyrir fanga sem vilja þiggja. Hér á landi er ekkert slíkt til staðar og þegar fangar koma úr fangelsi hafa þeir oft að engu að hverfa nema sama gamla farinu.

Í ljósi þess árangurs sem hefur náðst annars staðar með áherslu á betrun langar mig að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Hefur átt sér stað stefnumótun um betrun í fangelsum hér á landi? Ef svo er, hvernig hefur hún þá farið fram og hefur verið litið til þess hvernig slíkri stefnumótun er háttað í grannríkjum?

2. Hver er endurkomutíðni í íslenskum fangelsum og hvernig er hún reiknuð?

Og síðast en ekki síst:

3. Hvaða aðstoð stendur föngum til boða eftir að afplánun lýkur? Stendur til boða aðstoð í húsnæðis- og atvinnumálum? Hefur verið horft til nágrannaríkja í þessum efnum?