144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

betrun í fangelsum og aðstoð að lokinni afplánun.

586. mál
[19:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég áleit rétt að koma inn í þessa umræðu. Mig langar að ræða þetta aðeins út frá þeirri betrun sem ég tel að felist í aðgengi að námi, fyrir utan það að þeim sem hafa möguleika á námsþátttöku utan fangelsis, ef þeir uppfylla skilyrði til slíks, verði gert kleift að mennta sig áfram og sérstaklega með tilliti til verknáms.

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um eitt. Á Akureyri er fangavörður sem er kennari sem leitast hefur eftir því að fá launahækkun til að geta leiðbeint föngum við kennslu, en mikill munur er á aðgengi fanga að kennurum. Þeir hafa eingöngu fjarnám í boði alls staðar annars staðar í rauninni nema á Litla-Hrauni. Mig langar því að spyrja hvort þetta hafi verið rætt eitthvað innan ráðuneytisins, því að mér skilst að þessu hafi verið neitað, væntanlega af fyrri ráðherra, ég veit það ekki. En mig langar til að vita meira um þetta því að ég tel að þetta sé ein af þeim leiðum sem mundu aðstoða menn við að koma undir sig fótunum (Forseti hringir.) hvað varðar að geta haft stuðning innan fangelsisins.