144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

betrun í fangelsum og aðstoð að lokinni afplánun.

586. mál
[19:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um ágæta fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda um þetta mál. Ég er sammála hv. þingmanni um að gríðarlega mikilvægt er hvernig til tekst að hefja aftur nýtt líf eftir að þessu tímabili í lífi manna lýkur. Það á auðvitað bæði við um mikilvægi náms og síðan að komast út í atvinnulífið og geta alið önn fyrir sér og komið sér fyrir. Ég held að það sé lykilatriði hvernig til tekst til framtíðar og deili þeim skoðunum með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og þess vegna hef ég verið að líta til þess.

Varðandi það mál sem var nefnt hér út af Akureyri, ég þyrfti bara að fá tækifæri til að skoða það. Ég get ekki svarað því hér, ég er ekki með svar á takteinum út af því tiltekna máli, en ég er að sjálfsögðu reiðubúin til að skoða það í ráðuneytinu hvað býr að baki. Ég vil því hvorki gefa nein svör í eina átt eða aðra fyrr en ég hef einhverjar nánari upplýsingar um það. Ég skal afla þeirra upplýsinga og við getum rætt saman um það, ég og hv. þingmaður eftir þessa umræðu.