144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með gistirými.

617. mál
[19:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Eins og allir vita hefur orðið hér mjög ævintýralegur vöxtur í ferðaþjónustu, sem er ánægjuefni. Það er þannig að þessi atvinnugrein er sú stærsta á landinu. Það hefur þó sínar skuggahliðar því að greinin liggur undir ámæli um svarta atvinnustarfsemi, ekki síst í gistiþjónustu.

Eins og allir vita heyra málefni ferðaþjónustunnar undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra en þar sem eftirlit með því að gististaðir séu skráðir eru á hendi lögreglu beini ég fyrirspurnum mínum til hæstv. innanríkisráðherra.

Sú staða sem nú er uppi er náttúrlega óþolandi. Hún er óþolandi vegna þess að öryggis er ekki gætt, gististaðir eru oft og tíðum ekki teknir út af brunaeftirliti. Aðstaðan er óþolandi vegna þeirra sem þó standa sig í greininni og standa höllum fæti gagnvart hinum sem ekki skila sköttum og skyldum. Þetta er óþolandi fyrir greinina sem slíka og það er óþolandi fyrir stjórnvöld að vita til þess að stór hluti af tekjum heillar atvinnugreinar skili sér ekki inn í þjóðarbúið. Af því tilefni langar mig til að beina þremur spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hefur ráðherra upplýsingar um hversu margar íbúðir og herbergi á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki uppfylla skilyrði um skráningu og hafa því ekki starfsleyfi vegna útleigu í atvinnuskyni, eru nú leigð ferðamönnum?

2. Liggja fyrir sambærilegar upplýsingar vegna óskráðrar starfsleyfislausrar útleigu á landsvísu?

3. Hyggst ráðherra greiða fyrir því með sérstökum fjárheimildum að lögregla geti sinnt eftirliti með starfseminni og fært hana til betra horfs?

Það sjá allir að nauðsynlegt er að bregðast við því ástandi sem nú er uppi. Við erum með sívaxandi ferðamannastraum og spáð er vaxandi ferðamannastraumi áfram hér næstu árin. Við verðum því að spyrna við og færa þann hluta greinarinnar sem sannanlega er utan laga og réttar að lögum. Mér er kunnugt um frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem lýtur að því að einfalda skráningu en þótt ég fagni því að sá hluti sé einfaldaður hugnast mér ekki að færa lög að lögbrotum, þ.e. að aðlaga lög því ástandi að menn brjóti lög í landinu. Að því sögðu fagna ég því að einföldun sé uppi en mig langar að beina þessum þremur spurningum til hæstv. ráðherra.