144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

eftirlit með gistirými.

617. mál
[19:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er vandasamt fyrir mig að svara þessari fyrirspurn svo fullnægjandi sé, að ég tel, vegna þeirrar staðreyndar að þetta er aðeins að hluta til atriði sem varðar ráðuneyti mitt eða innanríkisráðuneytið. Ég mun reyna að svara þeim spurningum eins og ég best get sem hv. þingmaður hefur borið hér upp en vil segja strax í upphafi að svör mín verði ekki alveg fullnægjandi miðað við þær spurningar sem hann hefur varpað fram af því að þær varðar líka annað ráðuneyti, og ekki síst mundi ég halda. Ég vil því eiginlega hvetja hv. þingmann til að beina einnig fyrirspurn til atvinnuvegaráðuneytisins hvað þetta varðar, þannig að gleggri mynd fáist á málið heldur en ég get veitt í þessu svari.

Hv. fyrirspyrjandi spyr um fjölda íbúða og herbergja sem leigð eru ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu sem ekki uppfylla skráningu og hafa því ekki starfsleyfi vegna útleigu í atvinnuskyni. Ég get ekki svarað því með fullnægjandi hætti af minni hálfu þar sem innanríkisráðuneytið hefur hvorki upplýsingar um gerð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu né upplýsingar um það hvort þau uppfylli skilyrði til skráningar og það hefur ekki heldur upplýsingar um nýtingu þess húsnæðis sem ekki telst falla undir rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gistihús og skemmtanahald. Við höfum einfaldlega ekki þau gögn undir höndum í ráðuneytinu og við söfnum ekki þeim upplýsingum. Málefni þessi falla, á grundvelli gildandi forsetaúrskurðar, undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og má jafnvel segja að að hluta til sé um að ræða mál sem að vissu leyti gæti fallið undir umhverfisráðuneytið, það þarf bara að skoða. Þá er ég að tala um þessar reglur allar. Hér er um að ræða málaflokk sem fer svona þvert á og svörin endurspegla það.

Hv. þingmaður nefndi aðeins frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ég vil fara örfáum orðum um það. Þar er um að ræða heimild fyrir einstaklinga, ekki lögaðila, til að leigja út íbúð sína í allt að átta vikur á ári. Samkvæmt því frumvarpi er um að ræða skráningarskylda starfsemi en ekki leyfisskylda eins og nú er og er með frumvarpinu reynt að mæta því sem við vitum að á sér stað og starfsemin færð upp á yfirborðið og umgjörðin einfölduð. Menn geta síðan haft sínar skoðanir á því hvernig best sé að halda á slíkum málum en það er alla vega mjög mikilvægt að málin komist upp á yfirborðið, ég held að það sé mjög til bóta. Ef menn vilja ganga lengra er sjálfsagt að gera það en fyrst þurfum við að gera okkur grein fyrir því hvernig umhverfið er.

Það er vissulega svo að samkvæmt ákvæðum laga um veitinga-, gististaða- og skemmtanahald veita sýslumenn rekstrarleyfi til sölu gistingar og lögreglustjórar hafa eftirlit með framkvæmd laganna og þar með eftirlit með því að leyfishafi uppfylli skilyrði um rekstrarleyfi og fylgt sé skilyrðum sem leyfinu eru bundin, svo sem um dyravörslu, leyfilegan afgreiðslutíma og gestafjölda o.s.frv., eins og við þekkjum um lög um veitinga- og gististaði.

Það er álitamál hvort í ákvæðum þessara laga um eftirlit lögreglu felist frumkvæðisskylda lögreglu til að hafa uppi á þeim sem ekki hafa sótt um leyfi til reksturs gistirýmis. Þær upplýsingar sem fyrirspyrjandi spyr um eru því ekki fyrirliggjandi í innanríkisráðuneytinu.

Sama gildir um aðra spurninguna, hvort fyrir liggi sambærilegar upplýsingar vegna óskráðrar starfsleyfislausrar útleigu á landsvísu. Innanríkisráðuneytið hefur ekki gögn til að svara þeirri spurningu.

Í þriðja lagi er spurt að því hvort ráðherra hyggist greiða fyrir því með sérstökum fjárheimildum að lögregla geti sinnt eftirliti með þessari starfsemi og fært hana til betra horfs. Við höfum ekki á þessu stigi litið sérstaklega til fjárþarfa í því tiltekna máli. Hins vegar er þetta hluti af verkefnum lögreglunnar, hún þarf að forgangsraða fjármunum sínum og það er auðvitað mikilvægt mál að hún hafi þá fjármuni sem hún þarf til að sinna verkefnum sínum. Það er eiginlega það verkefni sem við í innanríkisráðuneytinu höfum helst haldið uppi gagnvart fjárveitingavaldinu, að við fáum þá fjármuni sem lögreglan þarf á að halda til að geta sinnt verkefnum sínum. En lengra hefur ekki verið gengið hvað þetta mál varðar í innanríkisráðuneytinu.