144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

ráðgjafarnefnd um verndun hella.

620. mál
[19:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn um verndun hella sem er mál sem var sett af stað í minni tíð í umhverfisráðuneytinu. Um var að ræða samráðsnefnd sem var sett á stofn en sú skilaði af sér vorið 2013. Megintillaga samráðsnefndarinnar var að hraunhellar í landinu yrðu friðlýstir með heildarfriðun en jafnframt greindir í þrjá flokka eftir stigi friðunar. Flokkarnir yrðu hellar sem væru lokaðir allri almennri umferð, sýningarhellar sem yrðu opnir fyrir ferðafólki og síðan opnir hellar sem yrðu opnir öllum án eftirlits.

Þessi vinna var sett í gang fyrst og fremst að frumkvæði Árna B. Stefánssonar sem hefur verið mikill ástríðumaður í vernd hella á Íslandi og hefur líka gert sérstaklega að sínu baráttumáli að gengið sé um þá af virðingu. Þetta reyndist vera verulega þörf vinna sem fór fram á vettvangi samráðsnefndarinnar þar sem umferð og umgengni um hella er og hefur verið að sumu leyti mjög tilviljunarkennd og ekki nægilega háð reglum sem settar eru eða yrðu settar fyrir hvern helli um sig.

Samráðsnefndin skilaði skýrslu til mín á sínum tíma og lagði til að ákvæði um verndun hella yrðu styrkt í náttúruverndarlögum, komið yrði á gagnagrunni um hella og fræðsla til almennings aukin og auk þess var lagt til að starfsmenn verndarsvæða og aðrir leiðsögumenn um hella nytu sérstakrar fræðslu um umferð í hella.

Þá lagði nefndin til að komið yrði á fót ráðgjafarnefnd um hella sem yrði ráðgefandi um framkvæmdir í og við hella og skráningu þeirra. Var ráðgjafarnefndin skipuð í framhaldinu af þessum skilum. Þegar þarna var komið sögu þurfti sú sem hér stendur eðli málsins samkvæmt að hafa nokkuð hraðar hendur með að skipa ráðgjafarnefndina en hún var skipuð í apríl 2013.

Fyrirspurn mín til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er:

Hverju hefur ráðgjafarnefnd um verndun hella áorkað frá því að hún var skipuð í apríl 2013?

Síðan og ekki síður:

Eru uppi áform um áframhaldandi störf hennar að hellavernd? — þá í samræmi við tillögur samráðsnefndarinnar á sínum tíma.