144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.

657. mál
[19:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í apríl 2014 var samþykkt hér breyting á tilskipun Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum sem tekur gildi árið 2017. Það eitt og sér kallar á að endurskoða þurfi lög um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli tilskipunarinnar. Þá er eðlilegt að við þá endurskoðun verði horft til þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd matsins á umhverfisáhrifum hér á landi í yfir 20 ár. Mig langar jafnframt að segja að mér finnst að við eigum að draga lærdóm af þeirri reynslu sem hefur safnast fyrir á þessum 20 árum og séum á hverjum tíma vakandi fyrir því sem betur má fara í löggjöfinni og framkvæmd hennar með tilliti til þess síbreytilega umhverfis sem við lifum í, eins og þingmaðurinn gat hér um, að aðstæður geta breyst og ekki síst á það við á Íslandi.

Í úttekt OECD á umhverfismálum á Íslandi hefur verið bent á þætti sem þörf sé á að bæta við mat á umhverfisáhrifum og má þar helst nefna þætti sem varða tímafresti og ákveðna óskilvirkni í umsagnarferlinu hér á landi. Einnig hefur Skipulagsstofnun bent á að tilefni sé til að fara heildstætt yfir reynslu af löggjöfinni og má þá helst nefna hvernig hægt sé að einfalda verkferla, bæta skilvirkni og ramma betur inn tímalengd. Mig minnir að ég hafi lesið að það hafi verið sex ár í fyrstu lögunum en það skiptir ekki öllu hvort þau voru sex eða sjö, það er alveg rétt að menn hafa verið að hugsa um tímalengdina. Mér finnst að við þá endurskoðun sem er að fara í gang sé eðlilegt að gildistíminn sé einnig tekinn til endurskoðunar.

Ég vil svara seinni hluta fyrirspurnarinnar þó að við komum nánar að henni á eftir. Ég tel að aðkoma almennings, hagsmunaaðila og umhverfis- og náttúruverndarsamtaka sé greið þannig að mati á umhverfisáhrifum, enda er lykilþáttur að samtök og almenningur hafi aðkomu að matinu. Ákvæði Árósasamningsins um þátttöku almennings og frjálsra félagasamtaka voru tekin upp í tilskipun Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum árið 2003. Að mínu viti er Árósasamningurinn nokkuð opinn og sveigjanlegur með útfærslur. Hann fjallar ekki sérstaklega um endurskoðun matsskýrslu enda er ráðgjöf ríkja mjög misjöfn um mat á umhverfisáhrifum. Þetta hefur verið mat ráðuneytisins og einnig höfum við leitað til prófessors í háskólanum sem telur að innleiðing okkar sé fullnægjandi.

Hins vegar er alltaf spurning hvort rétt sé að útfæra nánar kæruheimildir. Mér finnst eðlilegt að við miðum okkur nokkuð við Norðurlönd varðandi til dæmis mat á umhverfisáhrifum sem og þessi ákvæði. Þau voru síðast innleidd hér í lögum um mat á umhverfisáhrifum með lögunum árið 2005. Eins og ég segi, ég tel að þessu efni sé nokkuð vel fyrir komið í lögum en eigi að síður getur verið ástæða til að yfirfara þennan mikilvæga þátt varðandi umhverfisáhrif þegar kemur að endurskoðun laganna.