144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

búsetuskerðingar.

624. mál
[19:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Sá hópur lífeyrisþega sem er hvað verst staddur fjárhagslega eru þeir sem eru með skertar greiðslur eða hlutagreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna þess að þeir hafa verið búsettir erlendis hluta af starfsævi sinni. Þetta á bæði við um fólk sem hefur fæðst hér á landi en hefur verið búsett og starfað erlendis sem og fólk sem fæðst hefur erlendis en flust hingað til lands á fullorðinsárum. Það hefur fjölgað í þessum hópi frá árinu 2008 og fyrirséð að það á eftir að fjölga enn meira í honum í framtíðinni.

Kerfið í dag virkar þannig að einstaklingur vinnur sér inn fullan rétt til greiðslna úr almannatryggingakerfinu með 40 ára búsetu hér á landi meðan hann er á aldrinum 18–67 ára. Þá er gerð krafa um þriggja ára búsetu hér á landi fyrir umsókn um örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri reyndar líka. Þeir einstaklingar sem hér um ræðir eiga, eða eiga að eiga, rétt á greiðslum frá fyrra búsetulandi. Vandinn er hins vegar sá að sá réttur skilar sér sjaldnast sem greiðslur til viðkomandi lífeyrisþega jafnvel þó svo milliríkjasamningur samningur sé í gildi milli Íslands og fyrra búsetulands. Þessir einstaklingar þurfa því að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til langframa og koma því til með að búa við hlutagreiðslur eða búsetuskertar greiðslur alla ævi, enda gilda sambærilegar reglur einnig um ellilífeyrisþega og hlutfallslega greiddur ellilífeyrir tekur við af hlutfallslega greiddum örorkulífeyri.

Ég hef áhyggjur af fjárhagslegri afkomu þessa hóps og vil beina eftirfarandi spurningum til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra:

1. Er á vegum ráðherra starfandi nefnd eða starfshópur sem hefur það hlutverk að skoða stöðu lífeyrisþega innan íslenska almannatryggingakerfisins sem búsettir eru á Íslandi en fá skertar greiðslur vegna þess að þeir hafa verið búsettir erlendis? Ef svo er ekki, hefur ráðherra hug á að stofna slíka nefnd eða starfshóp?

2. Veitir íslenska ríkið einstaklingum sem fá búsetuskertar greiðslur aðstoð við að sækja greiðslur úr almannatryggingakerfi í fyrra búsetulandi?

3. Hyggst ráðherra endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 þar sem kveðið er á um hlutfallsútreikning sérstakrar framfærsluuppbótar vegna búsetu erlendis svo tryggja megi lágmarksframfærslu allra lífeyrisþega?