144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

búsetuskerðingar.

624. mál
[19:51]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir spyr hvort starfandi sé nefnd eða starfshópur sem hafi það hlutverk að skoða stöðu lífeyrisþega, innan íslenska almannatryggingakerfisins, sem búsettir eru á Íslandi en fá skertar greiðslur vegna þess að þeir hafa verið búsettir erlendis. Og ef svo er ekki, hvort ráðherra hafi hug á að stofna slíka nefnd.

Ég veit að hv. þingmanni er kunnugt um að að störfum er nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Á tíunda fundi nefndarinnar var ákveðið, eins og kemur fram í fundargerð, með leyfi hæstv. forseta, að sérstakur hópur sérfræðinga skuli skoða stöðu innflytjenda sem og framfærslu þeirra sem búsettir eru hér á landi en hafa aðeins áunnið sér lítil réttindi í almannatrygginga- og lífeyrissjóðakerfum hér á landi og erlendis. Í svari ráðuneytisins til Öryrkjabandalagsins frá 2. mars sl., þar sem spurt var um framhald þess sérfræðingahóps sem hér um ræðir, hvort honum væri ætlað að skila tillögum til ráðherra eða til nefndar um endurskoðun almannatryggingalaga, kom fram að það væri mat ráðuneytisins að rétt hefði verið að beina þeim fyrirspurnum til formanns nefndarinnar þar sem sérfræðingahópurinn starfar í umboði hennar. Ég geri þannig ráð fyrir að í tillögu nefndarinnar verði tekið á stöðu lífeyrisþega sem eru búsettir hér á landi en fá ekki fulla greiðslu vegna þess að þeir hafa búið í svo skamman tíma hér á landi.

Ég hef hins vegar aflað mér upplýsinga frá starfsmönnum ráðuneytisins sem sitja fundi nefndarinnar og eru í áðurnefndum sérfræðingahópi um að ákveðið hafi verið að bíða eftir að tillögur nefndarinnar liggi fyrir áður en ákvörðun verður tekin um tillögur er varða stöðu þeirra sem eiga takmörkuð réttindi hér á landi innan almannatryggingakerfisins. Ástæða þess mun fyrst og fremst vera sú að efnislegt innihald tillagna nefndarinnar skipti miklu máli um þá tillögu sem sérfræðingahópurinn mun leggja fram varðandi þennan tiltekna hóp einstaklinga.

Það má líka velta því upp hvort rétt sé að tala um skerðingar í þessu sambandi, að þær skerðingar séu til komnar vegna búsetu erlendis, þar sem réttindi til almannatrygginga á Íslandi ávinnast á grundvelli búsetu á Íslandi. Full búseta, eins og hv. þingmaður fór yfir, í 40 ár á aldrinum 18–67 ára veitir fullan rétt til ellilífeyris en skemmri búseta veitir hlutfallslegan rétt samkvæmt lögum um almannatryggingar. Síðan eru árin fram til 67 ára aldurs einnig tekin með í reikninginn við ákvörðun örorkulífeyris samkvæmt sömu lögum. Til viðbótar réttindum í almannatryggingakerfinu koma réttindi frá lögbundnum lífeyrissjóðum á grundvelli atvinnu hér á landi og greiddra iðgjalda.

Þeir sem hafa búið erlendis eru oft í þeirri stöðu að hafa ekki áunnið sér full réttindi á Íslandi og kunna að hafa áunnið sér réttindi í fyrra búsetulandi sem koma til viðbótar þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér í íslenska almannatryggingakerfinu. Um þetta gilda svipaðar reglur í Evrópulöndum og má segja að Ísland geri þokkalega vel við sína lífeyrisþega að þessu leyti, meðal annars með framreikningi örorkubóta til 67 ára aldurs.

Áfram er spurt hvort veitt sé aðstoð við að sækja greiðslur úr almannatryggingakerfi í fyrra búsetulandi. Þegar gagnkvæmur milliríkjasamningur er í gildi við viðkomandi land hefur Tryggingastofnun ríkisins milligöngu um og aðstoðar við lífeyrisumsókn til viðkomandi ríkis og byggist það á reglugerð frá árinu 2012 sem felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um samræmingu almannatryggingakerfa og þeim samningum sem Ísland hefur gert á sviði almannatrygginga. Þetta á aftur á móti ekki við þegar enginn samningur er í gildi.

Svo er spurt hvort ætlunin sé að endurskoða ákveðin ákvæði reglugerðar nr. 1052/2009, þar sem kveðið er á um hlutfallsútreikning sérstakrar framfærsluuppbótar vegna búsetu erlendis svo að tryggja megi lágmarksframfærslu allra lífeyrisþega. Eins og ég sagði hér áðan þá er ég að bíða eftir því að fá tillögur frá nefndinni um endurskoðun laga um almannatryggingar. Ég er að vonast til þess að hún muni skila af sér með vorinu þó að það geti hugsanlega tafist eitthvað fram á sumarið og ég veit að framfærsluuppbótin hefur þar verið talsvert til umræðu. Því tel ég ekki tímabært að gera breytingar á þeirri reglugerð sem hér um ræðir heldur bíða eftir tillögum nefndarinnar og bregðast við í framhaldi af því.