144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjármögnun útgjalda til málefna fatlaðs fólks.

639. mál
[20:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, fyrir greinargóð svör.

Það er mikilvægt að málefni fatlaðra verði áfram hjá sveitarfélögum því víða heyrir maður raddir um að þjónustan sé mjög góð og að vel hafi tekist til og að nú fái einstaklingar þjónustu í dag sem fengu ekki þjónustu áður en tilfærslan varð. Það er oft svo að þegar verkefni koma í nærsamfélagið breytist þjónustan á þann veg.

Eins og ráðherra talaði um er unnið að endurskoðun tilfærslunnar og raddir hafa heyrst innan sveitarfélaganna um að mikilvægt sé að samræma viðmið og þá þjónustu sem höfð er að grunni varðandi þessi mál. Ég vona að vinnan skili þeim árangri að sátt náist í málinu þeim til heilla sem þurfa á þjónustunni að halda.