144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjármögnun útgjalda til málefna fatlaðs fólks.

639. mál
[20:12]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta mál. Ég á eftir að fá skýrslu verkefnisstjórnar um endurmatið, en það vill oft vera mun algengara en hitt að við vanmetum hversu langan tíma stór verkefni taka, hvort sem við erum að tala um að meta þau, eins og þá miklu breytingu sem varð við að færa þennan málaflokk yfir, eða önnur verkefni sem við erum að sinna í Stjórnarráðinu.

Ég nefndi nokkra þætti sem geta haft veruleg áhrif á ákvörðun um endanlega útsvarsprósentu sveitarfélaga. Núna síðast varðandi niðurstöður um framvindu sveitarfélaganna í gegnum jöfnunarsjóðinn voru menn þar að taka upp, ég mundi segja betri vinnubrögð, faglegri vinnubrögð, að byggja ákvörðunina um úthlutun fjármagns á grundvelli hins svokallaða SIS-mats. Það gerði að verkum að sum sveitarfélög sem höfðu verið mjög ósátt á undan urðu sáttari. Ég taldi að það hefði komið fram viðurkenning á því að veita þyrfti einstaklingum þeirra meiri þjónustu meðan önnur sveitarfélög voru ósátt vegna þess að niðurstöður SIS-matsins gáfu til kynna að of mikið fjármagn fór þangað áður í samræmi við þjónustuþörfina.

Síðan eru þættir sem ég held að við þurfum einfaldlega að ræða, hvort við þurfum að ramma betur í löggjöfinni samþættingu félagsþjónustulöggjafarinnar og málefni fatlaðs fólks, þ.e. hver þjónustan sem sveitarfélögin eiga að veita. Það tengist síðan þá alltaf hinni endalausu umræðu um sjálfræði sveitarfélaganna en það sé þá meira samræmi á milli sveitarfélaganna í þjónustustiginu og liggi þá skýrar fyrir hvert þjónustustigið eigi nákvæmlega að vera.