144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við hófum þingstörf í gær eftir páskahlé í skugga verkfalla og vaxandi afleiðinga þeirra m.a. á heilbrigðiskerfið og full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því þó að fyrsti þingdagurinn hafi nú verið þannig að forusta ríkisstjórnarinnar var fjarverandi og kom ekki til umræðu um þetta mál frekar en önnur. Átökin snúast um réttláta og sanngjarna skiptingu, nú þegar hagur íslensks samfélags batnar eftir endurreisn þess. Skilaboðin frá ríkisstjórnin hingað til eru þau að fyrst þurfi að bæta hag þeirra sem meira hafa, sem er óskynsamlegt og beinlínis mannfjandsamlegt. Samfylkingin mun styðja allar tilraunir til að bæta hag þeirra sem minnst hafa, tryggja hækkun lægstu launa og sanngjarnari skattlagningu og lög sem hindra að bónusar og ofurlaun komist hér á að nýju.

Það er þess vegna undarlegt að hugsa til þess að hér kemur hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og talar einmitt fyrir því að við niðurgreiðum í skattkerfinu til þess að fá hingað fyrirtæki frá útlöndum í samkeppni við láglaunasvæði eins og sérstök svæði í Suður-Ameríku og annars staðar. Er það atvinnustefnan sem á að tryggja há laun á Íslandi?

Ég ætla fá að bregða út af því sem ég ætlaði að tala um og nefna það að hér koma menn á öðrum degi eftir langt þinghlé og skammast út í stjórnarandstöðuna. Mér finnst það koma úr hörðustu átt að það skuli vera kvartað yfir því að stjórnarandstaðan ræði störf þingsins og hvaða ráðherrar mæta til að svara þinginu og það á þeim degi þar sem er fyrirspurnatími þar sem lá fyrir að ætti að klára dagskrána — og hún var kláruð — og kalla það málþóf að við ræðum með hvaða hætti við getum komið á dagskrá málum sem við viljum ræða og taka svo sem dæmi húsnæðismál þegar tvö af fjórum frumvörpum, þau sem skipta mestu máli, eru ekki einu sinni komin inn í þingið (Gripið fram í.) og við í allsherjar- og menntamálanefnd eyddum tíma í morgun að ræða afnám orlofs húsmæðra sem lausn á vanda þessa samfélags. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)