144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Við ræddum þetta mál á síðasta landsfundi hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þar studdi ég þá tillögu að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald málsins og að leitað yrði leiðsagnar þjóðarinnar, en sú tillaga sem var niðurstaða fundarins vorið 2013 var að réttast væri að ljúka samningum og bera þá undir atkvæði.

Ég mundi móta afstöðu mína út frá þeirri umræðu sem verið hefur innan minnar hreyfingar um þessi mál þar sem menn hafa lagt höfuðáherslu á lýðræðislega afstöðu. En varðandi það hvort forsendurnar séu breyttar — eins og ég sagði áðan er Evrópusambandið ekki statískt fyrirbæri og hefur ýmislegt breyst hjá Evrópusambandinu síðan við gerðum hlé á viðræðunum að vori 2013 þannig að að sjálfsögðu þurfum við að skoða breyttar forsendur ef niðurstaðan yrði sú að halda áfram viðræðum. Hins vegar lá það fyrir að búið var að vinna að samningsafstöðu í ólíkum köflum í miklu samráði við ólíka aðila, en að sjálfsögðu breytast hlutirnir hratt innan Evrópusambandsins og hér heima þannig að það þarf alltaf að taka tillit til þess. Ég skil spurningu hv. þingmanns þannig.