144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé kjarni þeirrar umræðu sem við þurfum að ræða hér, þ.e. hvort forsendur hafa breyst eða ekki. Ég held til dæmis að það hafi komið fram á miðju síðasta kjörtímabili sem var kannski ekki með öllu ljóst í upphafi ferilsins, 2009, að það gekk mjög illa að fá fram skýrar línur varðandi þá kafla viðræðnanna sem öllum var ljóst fyrir fram að yrðu erfiðir. Það var ljóst að af hálfu margra í þáverandi stjórnarliði Samfylkingar og Vinstri grænna var áhugi á því að fá skýrar línur í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum snemma í því ferli, en niðurstaðan varð nú sú að það stoppaði árið 2011 og þokaðist ekkert áfram eftir það þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ráðherra í þáverandi ríkisstjórn, sem þeir hafa lýst í ágætum bókum, um að knýja fram afstöðu Evrópusambandsins í þeim efnum til að fá fram umræður um þau mál. (Forseti hringir.) Ég velti því upp: Ef farið er til þjóðarinnar (Forseti hringir.) og spurt hvort halda eigi áfram, þurfa ekki forsendur (Forseti hringir.) að vera aðeins skýrari en þær eru í dag til að eitthvert vit sé í spurningunni?