144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og varaformanni Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, fyrir ræðu hennar. Ég ætla að nota hennar eigin orð og ætla að velta því upp, vegna þess að mér er ómögulegt að skilja hvers vegna Samfylkingin, sem þá var í forustu í ríkisstjórn, neitaði leiðsögn þjóðarinnar þegar farið var í þá vegferð að hefja aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Mér er ómögulegt að skilja það.

Ég segi líka: Hvað veldur þeim dramatísku sinnaskiptum sem nú eiga sér stað í Samfylkingunni þegar hún allt í einu vill leita til þjóðarinnar í þessu máli? Þeim spurningum verður Samfylkingin líka að svara á nákvæmlega sama hátt og hún krefur stjórnarflokkana eða forustumenn stjórnarflokkanna um það af hverju þeir ætli ekki að standa við þau loforð sem þeir gáfu í aðdraganda kosninga. (Gripið fram í: Við gáfum engin loforð.) Samfylkingin fór í samstarf við Vinstri græna fyrir kosningarnar 2009 og myndaði ríkisstjórn með Vinstri grænum. Kosningamál Vinstri grænna var meðal annars að aldrei skyldi gengið til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það loforð var brotið. (Gripið fram í.) Það þótti Samfylkingunni allt í lagi þá. En Samfylkingin þarf að svara þeirri spurningu: Af hverju féllst hún ekki á í aðdraganda aðildarviðræðnanna fyrir kosninguna 16. júlí 2009 að leita til þjóðarinnar eins og lagt var til og hvað veldur þeim sinnaskiptum sem Samfylkingin sýnir í dag?

Virðulegur forseti. Ég tek hins vegar fram að ég fagna þeim sinnaskiptum sem hafa orðið, en mér þætti vænt um að vita hvað veldur þeim, því að það hefur ekki komið fram og kom ekki fram í ræðu hv. þingmanns þrátt fyrir að hv. þingmanni þætti ómögulegt að skilja margt annað í sinnaskiptum annarra.