144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili gaf flokkur þeirrar sem hér stendur, þ.e. í kosningabaráttunni fyrir þarsíðustu kosningar, eitt loforð í Evrópumálum. Það var að sótt skyldi um og aðildarsamningur lagður fyrir þjóðina. Það var aðferðafræðin sem lagt var upp með, það var aðferðafræðin sem kynnt var rækilega í kosningabaráttunni, það var stefna míns flokks og við hana stóðum við, að lýðræðisleg aðkoma þjóðarinnar skyldi vera atkvæðagreiðsla um samning, um niðurstöðu. Farið var með þá tillögu í gegnum Alþingi og hún hlaut hér brautargengi með fulltrúum allra þingflokka sem þá áttu sæti á þingi. Lýðræðislegt umboð þeirrar tillögu var því sterkt sama hvað menn reyna að segja hér í einhverjum eftirleik og undanhlaupum í þinginu á þessum tímapunkti.

Það sem vakir fyrir okkur í því að leggja fram tillögu núna um að spyrja þjóðina hvort halda skuli áfram með þær viðræður eður ei er einfaldlega það að við erum þeirrar skoðunar að það hafi verið, miðað við þá stöðu sem uppi er núna, eðlilegt og sé eðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að menn ætla meira að segja að sniðganga þingið í slitum á þeim viðræðum. 55 þúsund manns hafa óskað eftir því að fá að svara þessari spurningu. Okkur þykir þess vegna eðlilegt að verða við því. Það er stjórnarflokkanna hins vegar að svara því hvers vegna þeir sviku kosningaloforð sín. Við svikum aldrei nein kosningaloforð.

Virðulegi forseti. Viðsnúningurinn verður aldrei meiri hjá mínum flokki en hjá flokki hv. þingmanns, en um það snýst ekki þetta mál. Það snýst um í hvaða stöðu mál eru hverju sinni. Ég er búin að lýsa í hvaða stöðu málið var þegar við samþykktum að fara þá leið sem farin var á síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) En nú er það ríkisstjórnarflokkanna að svara því hvers vegna þeir vilja ekki (Forseti hringir.) einfaldlega spyrja þjóðina að því hvert skuli halda, ekki síst í ljósi þess að það voru þeir sem lofuðu því.