144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get endurtekið það, það var vegna þess að ég hafði lofað öðru. Ég hafði lofað annars konar lýðræðislegri aðkomu þjóðarinnar að málinu. Ég hafði gengið um í aðdraganda kosninga og sagt að ég teldi eðlilegt að fyrir lægi samningur sem þjóðin mundi síðan greiða atkvæði um.

Nú er það hins vegar svo að þessi ríkisstjórn er ekki bara að svíkja sín eigin kosningaloforð, báðir stjórnarflokkarnir, heldur eru menn líka að sniðganga Alþingi Íslendinga þar sem ákvörðunin var tekin upphaflega. Og þegar staðan er orðin slík að menn ganga fram hjá Alþingi, ráðherrar ganga fram hjá Alþingi Íslendinga, svíkja sín eigin kosningaloforð, kosningaloforð sem urðu til þess að málið var ekki rætt í aðdraganda kosninga, það var einfaldlega svæft með þessum loforðum, þá er eðlilegt við slíkar aðstæður að spyrja þjóðina um næstu skref, vegna þess að núverandi ríkisstjórn ræður ekki við verkefnið.