144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að við eigum í nánu sambandi við Evrópusambandið og Evrópusambandsríki í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Grundvallarágreiningurinn í þessu máli snýst hins vegar um það hvort við erum sátt við að forsendurnar í því samstarfi séu á þeim grundvelli eða hvort við teljum að aðild að Evrópusambandinu sé sú leið sem eigi að fara. Um það er grundvallarágreiningur.

Að því leyti kemur það kannski ekki spurningu minni við, enda hefur aldrei legið fyrir að það væri neitt flókið í sambandi við aðildarviðræður við Evrópusambandið; að fara yfir tékklista um það hvaða löggjöf á EES-sviðum hefur verið innleidd og hver ekki. Málið snýst um þau atriði sem ekki eru partur af EES og vekja spurningar í þessu sambandi.

Ég velti sjávarútvegsmálunum til dæmis fyrir mér. Þar var allt í frosti frá árinu 2011. Ég spyr hvort hv. þingmaður telur að forsendur séu fyrir því að byrja umræður um þau mál núna á sömu forsendum eða breyttum frá því sem þá var.