144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í besta falli misskilningur að segja að Ísland hafi sótt um án fyrirvara. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin …) Umsókn Íslands var studd samningsmarkmiðum, þingsályktun þar sem er ítarleg greinargerð. Það er svolítið gaman að segja frá því að í greinargerðinni er farið yfir þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi í aðildarsamningi svo að Íslendingar geti mögulega fallist á hann, með öðrum orðum samningsmarkmið. Þau samningsmarkmið byggja að mjög miklu leyti á landsfundarsamþykkt Framsóknarflokksins frá því í janúar 2009, en þá vildi Framsóknarflokkurinn sækja um aðild að Evrópusambandinu og tiltók þar ein átta, níu skilyrði sem aðildarsamningur þyrfti að uppfylla. Þetta þóttu mjög góð skilyrði. Þau skilyrði voru notuð í greinargerð með þingsályktuninni um að sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu. Það er langt í frá svo að menn hafi rennt blint í sjóinn eða farið í ferð án fyrirheits í því öllu saman.

Hver var aftur síðari spurningin? (Gripið fram í: Menn áskildu sér rétt til að slíta fyrirvaralaust … ) Já. Þá vil ég spyrja á móti: Af hverju gátu þessir flokkar ekki sagt fyrir kosningar að þeir vildu slíta? (Gripið fram í.) Um það snýst málið.

Flokkarnir sögðu annað. Ég fór alveg yfir það í ræðu minni. Auðvitað er það réttur ríkisstjórnar og þingmeirihluta að slíta viðræðum, en það er heiðarlegt að segja það fyrir kosningar og það er líka heiðarlegt að segja það í stjórnarsáttmálanum sínum. Hvorugt var gert. Þess vegna eru þetta svik. Þetta er óheiðarlegt. Um það snýst málið, ekki réttindi einhvers til þess að gera eitthvað.