144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Hann er einmitt ótrúlegur kaflinn um landbúnaðarmál í skýrslu Hagfræðistofnunar. Þar segir berum orðum að ekkert aftri því að Íslendingar geti fengið allt sem þeir vilja í landbúnaðarmálum. Ef afnema þurfi verndartolla verði hægt að finna aðrar leiðir til að bæta bændum upp það tap sem þeir verða fyrir út af því, þ.e. ef við mundum vilja það, sem er önnur spurning.

Í sjávarútvegsmálunum — það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það eru mjög margar leiðir til í þeim. Menn eru svolítið stífir á því að tala um að Evrópusambandið vilji engar undanþágur. Auðvitað segir Evrópusambandið það. Evrópusambandið vill að regluverkið og aðildarsamningar séu sem einsleitastir. Það er samningsafstaða Evrópusambandsins.

Við förum ekki í samninga við Evrópusambandið á grundvelli samningsmarkmiða þeirra. Við förum á grundvelli samningsmarkmiða okkar. Við segjum á móti og höfum alltaf sagt í sjávarútvegsmálum: (Forseti hringir.) Við erum eina eyríkið í Norður-Atlantshafi sem byggir hag sinn svona mikið á sjávarútvegi. Við þurfum sérlausnir. Það sögðum við. Sérlausnir, annað en undanþága. Svo sögðum við líka: Það er rúm fyrir túlkanir innan regluverks Evrópusambandsins og að (Forseti hringir.) í aðildarsamningi væri hægt að finna sérstakar leiðir. Sérlausn (Forseti hringir.) var það sem við lögðum áherslu á.