144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna orðaskipta sem urðu hér áðan er rétt að geta þess að í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009 var fjallað um spurninguna hvort setja ætti skilyrði, þ.e. hvort ganga ætti til viðræðna með skýr skilyrði. Fram kemur að fallið hafi verið frá því en hins vegar vísað til þess að í nefndaráliti utanríkismálanefndar væru viðmiðanir sem þáverandi ríkisstjórn ætti að halda sig við í viðræðunum. Þar eru tilgreindir ýmsir þættir og af því að menn hafa verið að ræða sjávarútvegsmálin sérstaklega er talað um að forræði yfir sjávarauðlindinni verði haldið. Það er talað um að Íslendingar eigi áfram að fara með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum og eigi að hafa beinan aðgang að slíku samningsferli og í þriðja lagi um að ekki verði veitt svigrúm fyrir erlendar útgerðir að fjárfesta hér þannig að nýting auðlindarinnar og afraksturinn færist í raun úr landi.

Þetta eru þrjú af þeim skilyrðum sem sett eru fram í þessu nefndaráliti og ýmsir hafa álitið að hafi átt sinn þátt í því að ekki hófust umræður um sjávarútvegsmálin á því kjörtímabili sem viðræðurnar stóðu yfir, þ.e. málin voru strand frá vori 2011 vegna þess að Evrópusambandið vildi ekki leggja fram rýniskýrslu og velti fyrir sér hvort setja ætti opnunarskilyrði sem gerði það að verkum að Íslendingar gátu ekki lagt fram samningsafstöðu. Og eins og rakið hefur verið hér í umræðum þá hreyfðist ekkert í þeim málaflokki það sem eftir var af því kjörtímabili.

Ég velti fyrir mér hvort (Forseti hringir.) hv. þm. Guðmundur Steingrímsson telur að þetta séu þau skilyrði (Forseti hringir.) sem við eigum að halda okkur við verði (Forseti hringir.) gengið til viðræðna að nýju.