144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Afsakaðu bráðlætið. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson vísar til þess að ýmsar leiðir séu fyrir hendi. En ég velti fyrir mér: Telur hv. þingmaður að þau meginskilyrði sem lesa má út úr áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um forræði yfir fiskimiðunum, um forræði yfir samningum um deilistofna og að útilokun erlendrar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi séu skilyrði sem eigi að halda sig við verði viðræðum haldið áfram eða þær teknar upp að nýju eða eitthvað þess háttar?

Ég spyr vegna þess að það hefur komið fram af hálfu ýmissa sem stóðu að viðræðunum á síðasta tímabili að þetta hafi verið skilyrði sem menn hefðu hugsanlega látið brjóta á í viðræðum og vísa ég þar með meðal annars til ummæla sem höfð hafa verið eftir þáverandi formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.