144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:46]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu að miklu leyti til um beint lýðræði. Ég held að þar séum við hv. þingmaður sammála um að beint lýðræði sé ákaflega góð viðbót við það þingræði sem við höfum í dag og jafnvel ætti að vera miklu fastara form á því en nú er.

Ég hefði viljað spyrja hv. þingmann hvort hún fallist ekki á að mikilvægt sé að við höfum almennar reglur um beint lýðræði, að við veljum ekki eitt mál af handahófi eða eitthvert mál sem okkur þykir mikilvægt þá stundina og tökum það í beina lýðræðið en ekki önnur mál. Ég held að það eigi að gilda um öll mál undantekningarlaust og ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að þjóðin eigi að geta vísað einstökum þingmálum til þjóðaratkvæðagreiðslu, að 10% kjósenda gætu til dæmis sagt: Við viljum fá að taka ákvörðun í þessu máli. Og það sé þá bindandi, það sé hin endanlega ákvörðun.

Mér finnst það galli við núverandi kerfi — þar sem minni hluti þingheims getur óskað eftir leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslu, gríðarlega dýr leið til að komast að því hvert viðhorf kjósenda er til mála — að þingmenn eru ekkert bundnir af niðurstöðunni. Þeir eru bundnir, samkvæmt stjórnarskrá, við sína eigin sannfæringu.

Í nýlegri könnun hjá MMR er spurt: Vilt þú að Ísland hafi stöðu umsóknarríkis? Í ljós kemur að örlítill sjónarmunur er á því hverjir eru andvígir því og hverjir ekki. Hvaða leiðsögn felur það í sér? Segjum að það kæmi út úr þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig mundi hv. þingmaður greiða atkvæði í kjölfarið?