144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:50]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er sammála mér um að beint lýðræði sé mikilvægt og væri góð grundvallarregla. En bara svo að ég fari aðeins út í sveitarstjórnarmálin, Píratar eru í sveitarstjórn með Bjartri framtíð, Samfylkingu og Vinstri grænum. Fram hafa komið 70 þúsund áskoranir um að flugvöllurinn verði áfram þar sem hann er. Ég hef ekki orðið var við að fulltrúi Pírata hafi tekið undir það að fara eigi með það mál samkvæmt vilja þeirra sem hafa skrifað undir, eða setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu þótt eflaust væri tilefni til þess. En endilega leiðréttu mig ef ég fer með rangt mál.

Það sem ég er að segja er að það er svo mikilvægt að við höfum almennar reglur um beint lýðræði, að við höfum beinar almennar reglur þannig að þjóðin geti haft aðkomu að málum eins og er í Sviss. Mér finnst það hafa tekist sérstaklega vel í Sviss að finna jafnvægi þarna á milli; ég held að það þurfi ekki nema 2% kjósenda til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá er það bindandi. Eitt prósent dugir til þess að hafa upphaf að máli á þinginu. Þetta væri allt til bóta, held ég, hér á Íslandi. Við getum rætt prósenturnar sem til þyrfti, en ég held að við þurfum að búa við þetta kerfi í öllum málum en ekki velja úr eitt mál sem minni hlutanum þóknast og vera stöðugt að taka það til.

Í Sviss hafa menn rætt þann möguleika að gefa þingmönnum, hluta þingmanna, minni hluta þingsins, það vald að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu en sérstaklega hefur verið mælt gegn því vegna þess að það leiðir til lýðskrums.