144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla nú ekki að fara að blanda sveitarstjórnarmálum inn í þessa umræðu en ef 70 þúsund undirskriftir bærust, sem ákall um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvar flugvöllurinn ætti að vera, fyndist mér sjálfsagt að boða til hennar.

Ég er ekki þannig að ég óttist vilja þjóðarinnar. Þjóðin er ekki endilega alltaf sammála mér. Maður verður bara að búa við það í lýðræðisríki að þurfa stundum að framkvæma það sem maður er ekki endilega samþykkur. Það lærir maður strax þegar maður er barn að maður getur ekki alltaf fengið að gera allt það sem maður einn vill.

Það sem er aðalatriðið og er eitthvað sem við þurfum að læra, bæði hér innan þings og víðar, er að geta rætt saman. Við þurfum að læra að finna sameiginlegar lausnir. Ég man hvað það var mikið sjokk þegar ég kom hér inn á þing eftir hrun, þegar ég hélt að við ætluðum að fara saman í að byggja upp nýja Ísland, hélt að við ætluðum að fara saman í það, allir þingmenn, óháð því hvort við værum hægri, vinstri, upp eða niður eða miðja eða hvað, að við færum ekki að rífast um það hvernig sjúkrabílarnir sem kæmu á slysstað væru á litinn heldur mundum við einhenda okkur í að vinna saman. En það er einhvern veginn þannig að bæði hér á þessum vinnustað og úti í samfélaginu hefur skapast hefð fyrir togstreitu.

Hér gætum við sameiginlega unnið að því að fá niðurstöðu í þetta mál. Ég held að það yrði öllum til góða.