144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil að við höldum aðildarviðræðunum áfram. Ég hefði viljað á síðasta kjörtímabili að við hefðum farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það áður en við fórum í aðildarviðræðurnar. En við erum á þessum stað núna. Ég sé ekkert að því að við höldum áfram aðildarviðræðum. Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að við fáum úr því skorið hvort við erum enn þá aðildarríki eða ekki. Ég var í viðtali við franskan blaðamann í gær og það er skilningur margra úti í Evrópu að við séum ekki lengur aðildarríki, og mér finnst þetta mjög bagalegt af því að ég get ekki svarað því skýrt hvort við erum aðildarríki eða ekki. Mér finnst svona hringlandaháttur mjög slæmur fyrir okkur, mjög slæmur.

Ég mundi svo sannarlega vilja að við héldum áfram aðildarviðræðunum. Ég hef aldrei gert upp við mig hvort ég vilji vera í Evrópusambandinu eða ekki. Ég get ekki gert það upp við mig fyrr en ég hef nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið upplýsta ákvörðun, byggða á staðreyndum, ekki getgátum. Það er hvorki gott í lífinu né í stjórnsýslunni að byggja stefnuna á getgátum. Við höfum ekki endanlega niðurstöðu og við fáum hana ekki fyrr en aðildarviðræðum hefur verið lokið og við sjáum endanlega niðurstöðu og sú niðurstaða mun fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég skil ekki hvað fólk óttast við að halda þessu ferli áfram á þann veg, því að það er bæði lýðræðislegt og meiri hluti þjóðarinnar vill ekki ganga í Evrópusambandið. Ég skil ekki af hverju má ekki klára þetta ferli. Ég held að það væri mjög gott fyrir okkur sem þjóð.