144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta hefur verið fróðleg umræða í dag og ég held að það sé tímabært að íslenska þjóðin taki ákvörðun um hvort hún vill að aðildarviðræðum verði haldið áfram eða ekki. Ég held enn fremur að þessi umræða muni í þingsögunni verða talin nokkuð söguleg. Ástæðan er sú að hér er lögð fram tillaga þar sem forustumenn allra stjórnarandstöðuflokkanna flytja saman tillögu um þjóðaratkvæði á tilteknum degi. Ég held, frú forseti, að þetta gefi tóninn fyrir næstu þingkosningar.

Ég er þeirrar skoðunar að núverandi ríkisstjórn sé að ýmsu leyti búin að ganga sér til húðar. Ég tel fast að því komið að þjóðin sé búin í huga sér að gera upp við sig að hún vilji ekki hafa hana áfram. Að hluta til er það vegna þess ofbeldis og harðneskju sem ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi sýnt varðandi Evrópumálin. Ég tel líka að þegar saga Evrópumálsins verður skrifuð þá muni þessi vetur allur skipta mjög miklu máli. Ástæðan er sú, og það er partur af því að ég tel farsælt að ræða þessa tillögu núna og samþykkja hana og ganga til slíks þjóðaratkvæðis, er að í vetur kom það algjörlega skýrt fram að ríkisstjórnin ákvað að hrinda ekki í framkvæmd þeirri ætlan sem hún gaf til kynna í fyrra og hæstv. forsætisráðherra staðfesti með yfirlýsingu sinni fyrr í vetur um að slíta viðræðunum. Það er ákaflega mikilvægt. Hæstv. ríkisstjórn gekk ekki lengra en að senda bréf sem fram hefur komið að skiptir engu máli.

Það liggur fyrir að að óbreyttu lítur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins svo á að umsóknin sé formlega í gildi og þó vera kunni að einhverjir hv. þingmenn fái því framgegnt sem ábyggilega svalar mesta ofsanum í skapi þeirra gagnvart Evrópusambandinu, að Ísland verði ekki kallað umsóknarríki, skiptir það engu máli. Í því felst ekki neitt annað en að Íslandi er ekki boðið á fundi sem það ekki sækir og það er nánast ekkert annað sem þar skiptir máli.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að í aðdraganda næstu kosninga muni málin kannski snúast að verulegu leyti um annað en það sem hæstv. ríkisstjórn telur að kosningarnar ættu helst að snúast um. Ég tel að næstu þingkosningar muni snúast að verulegu leyti um tvennt, að þjóðin fái að greiða atkvæði um það hvort hún vill halda viðræðunum áfram og um nýja og endurbætta stjórnarskrá á grundvelli þess verks sem unnið var í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Ég held þess vegna að hvatinn að þessari atburðarás hafi orðið með bréfi hæstv. utanríkisráðherra. Það er ekki af neinni sérstakri kerskni heldur vegna þess að mér er umhugað um málið að ég vil á þessum degi flytja hæstv. utanríkisráðherra þakkir fyrir að hafa verið aflvakinn sem hratt af stað þeirri þróun.

Það er athyglisvert þegar maður lítur yfir sögu Evrópusambandsmálsins að kannski má drepa niður þar sem Samfylkingin á sínum tíma tók afstöðu til málsins sem eins konar kaflaskila. Fram að því hafði málið verið í dauflegri umræðu, en Samfylkingin sótti sér víðtækara umboð í málinu en í nokkru öðru máli og heldur en nokkur stjórnmálaflokkur hefur sótt í einu eða neinu máli. (Gripið fram í.) Hún hafði allsherjaratkvæðagreiðslu um málið sem leiddi til mjög skýrrar niðurstöðu. 85% flokksins vildu gera þetta mál að sínu forgangsmáli. Þegar málið er síðan skoðað kemur í ljós að það er eftir þennan atburð sem umræðan tekur að snúast að töluverðu leyti um aðild, um umsókn, um evru.

Það er kannski eitt leiðarhnoða sem gaman er að staldra við ef maður lítur yfir söguna alveg frá árinu 2000. Það eru skoðanakannanir sem Samtök iðnaðarins gerðu, en þau spyrja sömu spurningarinnar tvisvar á ári. Skömmu eftir að Samfylkingin tók þá mikilvægu ákvörðun um að beita sér fyrir Evrópusambandsaðild fór í fyrsta skipti að koma fram í könnunum áhugi meiri hluta þjóðarinnar fyrir því að sækja um aðild. Upp úr 2005 fóru að koma fram kannanir sem sýndu að meiri hluti þjóðarinnar vildi ganga inn í Evrópusambandið. 2007 gerðist það síðan að í fyrsta skipti sást hjá fylgi eins einstaks stjórnmálaflokks meirihlutafylgi við það að taka upp evru. Það kemur hv. þingmönnum vafalítið á óvart þegar ég rifja það upp að sá flokkur var Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Það kom fyrst fram í fylgisstökki þess flokks meiri hluti fyrir því að taka upp evru.

Þegar hrunið hafði gengið yfir með öllum sínum ósköpum 2008 þá hafði það gerst í aðdraganda hrunsins að í endurteknum könnunum kom fram vilji meiri hluta þjóðarinnar fyrir því að sækja um aðild, að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Svona var staðan í hruninu og þessi þróun hélt áfram. Mest fór meiri hlutinn í könnunum yfir 80% að mig minnir. Að vísu var það könnun hjá Samtökum iðnaðarins, en það var þegar lætin gengu sem mest yfir samfélagið á sínum tíma. (Gripið fram í.)

Það var í því umhverfi sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu að leggja til umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það var í því umhverfi sem þingið á sínum tíma tók ákvörðun með 33 atkvæðum gegn 28, tveir sátu hjá, með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum að sækja um. Það er ákaflega mikilvægt að þetta liggi fyrir.

Þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir á sínum tíma lagði fram breytingartillögu þar sem reynt var að stöðva aðildarferlið, þá var það einfaldlega þannig að meiri hlutinn hér á þingi hafði aukist. Þá var tíu manna munur á milli. Þannig þróaðist þetta þrátt fyrir allt talið um þvinganir á einstaka þingmenn á síðasta kjörtímabili og þrátt fyrir þá erfiðleika sem vissulega voru fyrir hendi. Umsóknin var lögð fram á grundvelli mjög ítarlega útfærðs álits hv. utanríkismálanefndar. Það var meiri hluti hennar sem þar sneið út mjög nákvæmlega með hvaða hætti við vildum sækja um aðild.

Hv. þm. Birgir Ármannsson sem þekkir þetta manna best sagði áðan að allir vissu og gætu að því gengið hvernig samningur mundi líta út, en hann hafði eigi að síður svarað sjálfum sér um það hvort menn gætu gengið að því í andsvari fyrr í dag þegar hann sjálfur rakti tvö atriði sem eru umdeilanleg og erfiðustu atriðin sem varða fjárfestingar og tiltekið forræði yfir deilistofnum. Við vitum ekki um það nema látið sé reyna á samninga.

Með þeim tveimur skýrslum sem mestu skiptu og ég tel að hafi valdið kaflaskilum, skýrslu Hagfræðistofnunar og skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, en ég held mig við skýrslu Hagfræðistofnunar vegna þess að hennar var æskt af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, kemur algjörlega skýrt fram að allt það sem hv. þingmenn eru að segja, t.d. eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson sem heldur því fram enn einu sinni í dag að ekki sé hægt að fá undanþágur, er rangt. Bara til þess að það sé rifjað upp fyrir hv. þm. (Gripið fram í.) Vigdísi Hauksdóttur þá var í þeim samningum sem búið er að ljúka af prinsippástæðum slegist fyrir einni lítilli undanþágu, hana er þar að finna. Ef hv. þingmenn hafa ekki lesið heima ættu þeir að gera það áður en þeir ganga til svona umræðu. Það var ekki stórvægileg undanþága, en hún er fyrir hendi.

Það sem skiptir hins vegar máli er að aldrei hefur ríki sótt um á grundvelli svo ríkra sjávarútvegshagsmuna sem Ísland hefur. Aldrei hefur nokkurt ríki sem er jafn hlutfallslega stórt innan sjávarútvegsgeirans í Evrópu sótt um aðild. Það er líka annað sem skiptir máli. Ísland hefur allt aðra stöðu en t.d. Noregur. Það er hárrétt sem hér hefur komið fram hjá formanni utanríkismálanefndar að það sem verður erfiðast eru auðvitað sjávarútvegsmálin, vegna þess að þar erum við að fara yfir óplægðan akur. Þá á ég við að ekkert ríki hefur sótt um sem er í þeirri stöðu sem Ísland er, í fyrsta lagi varðandi stærð sjávarútvegsgeirans í hagkerfinu, en í öðru lagi sem hefur ekki sameiginlega efnahagslögsögu með ríkjum Evrópusambandsins. Það er hinn stóri munur á Íslandi og Noregi. Hin sameiginlega sjávarútvegsstefna grundvallast á sameiginlegri nýtingu sameiginlegra stofna innan sameiginlegrar lögsögu. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi þar sem Ísland er.

Þess vegna erum við að leggja á ókannað haf og þess vegna verður að láta reyna á samninga um niðurstöðu. Þess vegna er ekkert hægt að gefa sér það fyrir fram og íslenska þjóðin, þegar yfirgnæfandi meiri hluti hennar lýsir í ítrekuðum skoðanakönnunum yfir vilja til að halda áfram viðræðum, vill samt ekki gefa sér neitt fyrr en það er í hendi við samningaborðið, að það sé hægt með sérlausnum að ljúka málinu með þeim hætti að það falli að hagsmunum Íslands. Það er ástæðan fyrir þess munar sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson gerði að umræðuefni í annars afar snjallri ræðu sinni fyrr í dag.