144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er misskilningur eða partur af rangfærslum þegar menn hafa verið að halda því fram að það hafi verið vegna þeirra markmiða sem Ísland lagði fram í nefndarálitinu, sem ég gat um áðan, að Evrópusambandið skirrtist við að leggja fram sína rýniskýrslu um málið. Það er algjörlega skýrt hvað þar var á ferðinni. Við vorum þá í deilu við Evrópusambandið um makríl og sá maður til dæmis sem var nú verið að reka úr framboði fyrir Front National í Frakklandi var í fararbroddi með fleirum innan sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins til þess að koma því svo fyrir að ekki yrði gengið til samningaviðræðna við Ísland um sjávarútvegsmálin fyrr en makríldeilan væri leyst. Það var náttúrlega svívirðilegt og skammarlegt, en þannig reyndu makríllöndin að láta kné fylgja kviði gagnvart okkur. Við féllumst aldrei á neina undangjöf í því.

Það er hárrétt, sem kom hérna fram fyrr í dag, að það var að minnsta kosti vísir að því að sett yrðu einhvers konar opnunarviðmið á þann (Forseti hringir.) kafla sem tengdust makríl. Það hefði aldrei verið gengið að því. Það hefði sennilega leitt til slita viðræðnanna og það var þess vegna sem vinir Íslands (Forseti hringir.) sátu á þeirri skýrslu. Það kom aldrei fram.