144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru merkilegar upplýsingar sem koma hér fram að því leyti að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er að lýsa því yfir að enn er ekki hægt að fara þessa leið vegna þess að ekki er búið að semja um makrílinn.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram, í viðauka I, að það hafi verið skýrt að hvorki Íslendingar né Evrópusambandið treystu sér til að fara inn í þau skilyrði og þær forsendur sem lágu fyrir þessari umsókn varðandi sjávarútvegskaflann. Þá hefðu Íslendingar þurft að gefa upp sinn sjávarútveg og að auki að leyfa fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi.

Þetta veit hv. þingmaður sem var utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili. Hann skirrist enn við að segja sannleikann. Þetta liggur allt skýrt fyrir. Ég vil hvetja hann til þess að láta af því að reyna að slá ryki í augu fólks í þessu máli því að nú höfum við verið með þetta lík í lestinni, sem Evrópusambandsumsóknin er, síðan í mars 2011 og það er tímabært (Forseti hringir.) að við losum okkur undan þeirri áþján. Það hefur ríkisstjórnin sem betur fer gert, (Forseti hringir.) enda er mjög bjart fram undan í íslensku efnahagslífi.