144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Nei, ég kannast nú ekki við það. Til að mynda þá rifjaði ég það upp að í erfiðasta kaflanum og þeim flóknasta og vandasamasta, þeim sem laut að sjávarútvegi, voru auðvitað innan stokks í samningahópnum harðir andstæðingar aðildar úr hópi þeirra sem tengdust útvegi. Þeir tóku hins vegar þá skynsamlegu afstöðu að taka þátt í aðildarviðræðunum með þessum hætti vegna þess, eins og þeir sögðu: Jafnvel þó að við kunnum að vera á móti aðild þá eru engir betri til þess að semja um hagsmuni Íslands en við af því að við gjörþekkjum þá.

Það vill svo til að hv. þingmaður er áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, og að ósk utanríkismálanefndar á þessu þingi voru nefndinni send nánast fullkláruð drög að samningsmarkmiðum okkar, sem voru reifuð í þessum hópi og kláruð þar án nokkurra mótatkvæða að því er ég best veit. Hún getur skoðað hvort ekki sé algjört (Forseti hringir.) samræmi á milli álitsins og þess.