144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður þurfi bara að beita sannfæringarkrafti sínum á einn mann, formann Sjálfstæðisflokksins. Honum hefur verið brigslað um að hafa ekki staðið við orð sín. Ég gerði það ekki í minni ræðu. En ég gat þess heldur ekki, sem ég ætla að rifja upp hér, að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur á síðustu tveimur vikum fyrir páska tvisvar lagt lykkju á leið sína til þess að segja, annaðhvort í viðtölum, eins og hann gerði á Stöð 2, eða úr ræðustól Alþingis, að hann útilokaði ekki aðkomu þjóðarinnar að þessu máli og hann teldi enn að það væri farsælast.

Formaður Sjálfstæðisflokksins horfist í augu við þá staðreynd að ef hann svíkur loforð sitt þá klofnar flokkur hans sennilega, sem mun draga það fram að þessi ríkisstjórn á ekki möguleika á því að ná meiri hluta í næstu kosningum. Ég held að þetta sé að renna upp fyrir honum, þannig að lengi er von á einum.