144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg klárt að möl kom í gangvirkið þegar í ljós kom að þáverandi sjávarútvegsráðherra vildi ekki vinna að tilteknum málum með þeim hætti sem við höfðum áður bundist gagnvart Evrópusambandinu og hans eigin umboðsmaður, þ.e. ráðuneytisstjóri og formaður samningahóps í landbúnaðarhópnum, hafði sjálfur flutt á rýnifundi erlendis eftir samþykkt þar að lútandi í ríkisstjórninni, svo að það liggi alveg ljóst fyrir.

Svo að ég hoppi bara yfir í síðustu spurninguna þá tel ég að munurinn á regluverkinu og samningsmarkmiðum okkar sé allnokkur og það þurfi skapandi aðferðir til að laga það. En með hliðsjón af því með hvaða hætti Norðmenn luku erfiðum pörtum af sínum samningi þá held ég að það sé hægt. En ég hef alltaf sagt eitt og haldið því til haga: Ég tel að það langerfiðasta í þessu og lokaglíman hefði orðið um gagnkvæman rétt til fjárfestinga. Það hef ég alltaf sagt.