144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu er oft spurt: Hver á að sjá um viðræður við Evrópusambandið, ef það skyldi verða niðurstaða þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér er boðað til? Þjóðin vildi halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur talað um pólitískan ómöguleika í því samhengi og lýst því sem einhverju sem væri algjörlega ótækt eða ómögulegt að ætlast til af stjórnmálamönnum að þeir mundu vinna með þeim hætti gegn eigin sannfæringu.

Fyrir mér blasir við að þegar niðurstaða liggur fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu þá beri ríkisstjórn að fara eftir henni. Það er auðvitað til mjög gott dæmi um það hvernig menn unnu gegn hinum svokallaða ómöguleika á síðasta kjörtímabili þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók þátt í því, þvert á sína stefnu sem er að vera fyrir utan Evrópusambandið, að sækja um aðild þrátt fyrir að það væri andstætt stefnu flokksins, vegna þess að með því að sækja um aðild er ekki verið að ganga í Evrópusambandið. Þvert á móti er verið að opna möguleikann á að skoða með öllum bestu fáanlegum upplýsingum hvað er í boði, hvernig Íslandi mundi farnast og hvernig það mundi líta út inni í því ríkjabandalagi sem Evrópusambandið er. Það hefur alltaf legið fyrir í þessu ferli að lokaorðið væri hjá þjóðinni, að Ísland gengi ekki í Evrópusambandið án þess að þjóðin yrði spurð fyrst.

Fyrir mér er það mál sem hér er til umræðu tilraun til að leiða til lykta deilumál sem hefur verið viðvarandi í íslenskri umræðu í allt of langan tíma. Og það eru mörg önnur mál sem hanga á þessu máli. Við höfum í dag bara verið að tala um tvö frumvörp hæstv. félagsmálaráðherra í húsnæðismálum, annað gengur út á það að reyna að jafna muninn á milli þeirra sem eru í leiguhúsnæði og hinna sem njóta vaxtabóta í eigin húsnæði.

Af hverju er það, hvers vegna er verið að því? Af hverju er verið að greiða fólki vaxtabætur? Er það ekki vegna þess að menn eru hér í stórkostlegum vanda með gjaldmiðilinn? Er það ekki vegna þess að það er svo áhættusamt að lána í íslenskum krónum, að vextir eru hér hærri en gengur og gerist í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við? Þau tvö mál sem þar eru á ferðinni eru birtingarmynd af því að við erum með gjaldmiðil sem gengur ekki upp, sem kostar okkur stórkostlega fjármuni, mikið óhagræði og gerir okkur á margan hátt lífið mun erfiðara en það þyrfti að vera.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem hefur tekið þátt í umræðum í dag, kynnti nýverið skýrslu um nýtt peningakerfi. Það hefur að vísu, þrátt fyrir ágætishugmyndir, kannski ekki fengið neinar stórkostlegar viðtökur, en það er auðvitað birtingarmynd af þeim vanda sem ég tala hér um og er meðal þeirra atriða sem valda því að mér finnst við ættum að fullreyna þennan möguleika. Ég er reyndar búinn að gera upp hug minn gagnvart því, mér finnst að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að við munum fá slíkan samning að vel sé hægt að una við hann. Auðvitað þarf maður að sjá hann í endanlegri mynd, en ég hallast frekar að því, eins og staðan er í dag, að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Það er á margvíslegum rökum sem ég byggi þá skoðun mína. Ég tel að við deilum menningu með öðrum Evrópuþjóðum, eigum að vera í þeirra hópi. Mér finnst það jákvætt að geta flutt vörur og peninga á milli landa án hindrana, að felldir séu úr gildi tollmúrar og annað slíkt. Þá held ég að gjaldmiðilsmálin mundu leysast með mjög farsælum hætti ef við gætum tekið upp evru.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé gríðarlega mikill lýðræðishalli þegar kemur að afgreiðslu frumvarpa, tillagna og tilskipana hér á Alþingi sem hafa verið samin í Evrópusambandinu í Brussel, án aðkomu íslenskra þingmanna. Mér finnst það eiginlega vera stóri hlutinn í þessu máli. Mér svíður það að sjá hversu mikið af málum fara hérna í gegn án þess að þeim sé breytt eða án þess að þingmenn hafi tök á að gera almennilegar breytingar á þeim eða skrifa þær út frá hagsmunum Íslendinga.

Því er gjarnan haldið fram þegar ég segi þetta, að það sé auðvitað ekki þannig að Íslendingar eða íslenskir þingmenn geti ekki haft aðkomu að þessu, en það er bara ekki þannig. Það er svo mikill fjöldi mála sem fer hérna í gegn sem saminn er í Evrópusambandinu að það er algjörlega ótækt að staðið sé svona að málum. Mér finnst það ekki sæma fullvalda þjóð að taka við frumvörpum, tilskipunum, reglugerðum sem samin eru annars staðar en hér eða ekki með aðkomu íslenskra þingmanna. Það sem við erum að gera með þeirri tillögu sem hér er flutt er þá tilraun til þess að fá allar upplýsingar upp á borðið, fá að vita hvort einhverjar undanþágur eða sérlausnir fáist. Þetta er nú meðal þess sem stanslaust er verið að deila hér um, hvort það hafi verið niðurstaðan að undanþágur séu heimilar eða ekki. Það er reyndar niðurstaðan í skýrslu Hagfræðistofnunar sem birt var í fyrra að hægt er að fá slíkar lausnir.

Gott og vel. Ef við tökum einfaldlega orð þingmanna Framsóknarflokksins, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, og segjum að það sé satt, þá er væntanlega ekkert að óttast eða hvað? Þá hlýtur þjóðin auðvitað að fella samninginn ef engar sérlausnir eru. Ef samningurinn sem kemur út úr viðræðunum við Evrópusambandið er algjörlega ótækur fyrir þjóðina, hvaða áhyggjur hafa hv. þingmenn Framsóknarflokksins og þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem vilja koma í veg fyrir að menn ljúki þessum viðræðum? Það er þá væntanlega engin hætta á því að þjóðin mundi samþykkja inngöngu í Evrópusambandið á grundvelli slíks eða hvað?

Það er auðvitað ekki verið að horfa á þá staðreynd heldur fyrst og fremst verið að reyna að koma í veg fyrir að tekin sé ákvörðun um þetta efni, vegna þess að á meðan ekki er tekin ákvörðun erum við ekki í Evrópusambandinu. Þannig hefur umræðan um Evrópusambandið verið frá því að ég fór að fylgjast með pólitík fyrir næstum því 30 árum. Lengi vel sagði Sjálfstæðisflokkurinn að það væri einfaldlega ekki á dagskrá að sækja um aðild að Evrópusambandinu, málið væri ekki á dagskrá, það væri ekki nein ástæða til að ræða það. Svo þegar málið hefur verið sett á dagskrá reyna menn eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að ákvörðun sé tekin í málinu. Ég held að það sé einfaldlega tímabært fyrir Íslendinga að ákveða núna hvorum megin hryggjar þeir ætla að falla í málinu. Ef það er niðurstaða þjóðarinnar að hag okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins skulum við fá þá niðurstöðu fram, þá skulum við ljúka þessu máli, þannig að við getum farið að einbeita okkur að því og átta okkur á því hvaða aðrir möguleikar eru í boði, hvernig við getum tryggt Íslendingum sambærileg kjör og þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Það er nefnilega þannig að eins og staðan er núna getum við það ekki. Við erum ekki í stöðu til þess og höfum ekki verið í stöðu til þess lengi. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar menn reyna að koma í veg fyrir að hægt sé að taka ákvarðanir sem geta leyst svona mál til lengri tíma. Það er eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við. Þess vegna fagna ég þeirri tillögu sem hér er komin fram og mun styðja hana.