144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Lykilatriði varðandi þessa þingsályktunartillögu er að allir eiga rétt á að koma að ákvörðun sem þá varðar. Ég held að allir séu sammála þeirri grunnhugmynd innst inni þó að þeir segi kannski: Nei, ég vil fá að ráða, nú er ég kominn með völdin og meiri hlutinn á þingi á bara að ráða þessu. Við eigum að geta gert þetta eins og við viljum.

Þó að talað sé um aðildarviðræður undirstrika ég að viðræðurnar eru meira en aðildarviðræður, þær eru í sjálfu sér líka aðlögunarferli. Þetta kom alveg skýrt fram á fundi sem við Píratar áttum fyrir síðustu kosningar þegar við vorum að kynna okkur þetta mál með aðalsamningamanni Íslands við Evrópusambandið. Það er verið að laga löggjöf Íslands, ekki bara að EES-löggjöfinni heldur að ESB-löggjöfinni. Ef við förum yfir feril málsins hefði strax í upphafi átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við ætluðum að sækja um. Við hefðum átt að gera það af því að það er ákvörðun að laga allt lagaumhverfi landsins að lögum Evrópusambandsins, ekki bara EES-sáttmálans. Við hefðum átt að fara upprunalega í að spyrja þjóðina áður en við fórum af stað. Þetta er kostnaðarsamt ferli sem þýðir aðlögun að lögum Evrópusambandsins. Það var ekki gert.

Förum yfir það hvað gerðist fyrir síðustu kosningar og hverju menn lofuðu. Stjórnarflokkarnir þá settu málið á ís, en þeir flokkar sem núna eru í stjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru báðir með loforð í þessu efni. Loforð Sjálfstæðisflokksins í formlegum kosningabæklingi fyrir síðustu kosningar var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan — þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu.“

Hér er verið að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Það er verið að tala um það núna í haust. Það væri hægt að gera það á einhverjum öðrum tíma en það er komin svolítil pressa í málið vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson er að reyna, eins og þjóðin veit, að stilla hlutunum þannig upp með bréfi til Evrópusambandsins að þrýsta á Evrópusambandið að segja upp þessum samningi. Þetta er ákveðið bragð, ákveðin diplómasía eins og ég held að sé orðið sem forseti þingsins notaði þegar fjallað var um málið hérna fyrir páska. Það er komin svolítil pressa ef það á ekki bara að slíta þessum aðildarviðræðum. Raunverulega ætti kosningaloforð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks — við skulum sjá hverju Framsóknarflokkurinn lofaði. Í loforðabæklingi hans fyrir kosningarnar segir að ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarmenn eru ekki að segja að þeir ætli nauðsynlega að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, en þeir eru að segja að það eigi ekki að ganga lengra nema hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn geta farið í orðhengilshátt en ég get ekki sagt að hæstv. utanríkisráðherra sé færasti maðurinn í orðhengilshætti af því að í þessum orðhengilshætti sem hann reyndi að nota til að þvinga Evrópusambandið til að segja upp samningnum tókst honum það ekki einu sinni. Evrópusambandið segir: Nei, þið eruð enn þá í samningaferli.

Það er samt hægt að fara í orðhengilshátt með þessa setningu. Kjósandi sem les þetta lítur svo á að það eigi að verða þjóðaratkvæðagreiðsla. En, jú, það væri kannski hægt að skauta fram hjá og segja: Nei, nei, við lofuðum ekki þjóðaratkvæðagreiðslu — sem er rétt — við getum alveg slitið aðildarviðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hægt að fara þangað, en það er klárlega ekki það sem kjósendur væntu þegar þeir sáu þetta. Það er nú þekkt hvernig væntingastjórnun Framsóknarflokksins virkar varðandi kosningaloforðin almennt.

Sjálfstæðisflokkurinn lofaði klárlega að þjóðin tæki ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu, eins og segir í kosningaloforði hans.

Sú tillaga sem liggur fyrir núna og við erum að ræða kallar eftir — getur einhver hjálpað mér að muna síðan hvenær hún er? (Gripið fram í.) 26. september á þessu ári. Þá kemur alltaf sami kór þess fólks sem vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslur um stór mál nema það séu þá mál sem það sérstaklega vill, eins og Icesave-málið, um að þetta sé svo kostnaðarsamt. Þetta kostar of mikið. Ég kynnti mér kostnaðinn við vinnslu lagafrumvarps sem ég lagði fram með öðrum þingmönnum úr minni hlutanum, hv. þingmönnum Björt Ólafsdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, um að hætt yrði að undanskilja útleigu veiðiréttar og sölu veiðileyfa sem bundin er aflamarki á þann hátt að undanþága af laxveiði, af stangveiði, í virðisaukaskattinum yrði ekki lengur til staðar. Þetta er „loophole“ sem var túlkað þannig af ríkisskattstjóra 1995 eða 1999, ég man ekki hvort, og hefur verið til staðar síðan. Þar er sagt að við veiði í á sé maður að leigja fasteign og þurfi á þeim forsendum ekki að borga virðisaukaskatt. En ef við bara hættum að undanskilja okkur þennan skattstofn, sem felur í sér 2 milljarða kr., væri hægt að borga þjóðaratkvæðagreiðslu á hverju einasta ári og rúmlega það.

Samkvæmt svari frá innanríkisráðuneytinu til spyr.is kosta þjóðaratkvæðagreiðslur rúmlega 300 millj. kr. og í svari frá skrifstofu Alþingis til sama vefs, spyr.is, kemur fram að kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs í október 2012, þar á meðal kynningarefni, hafi numið um 281 millj. kr. Það er ekki hægt að halda því fram að við höfum ekki efni á að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um gríðarlega stór mál sem varða alla landsmenn og sem allir landsmenn hafa rétt á að koma að ákvörðun um ef við tökum á sama tíma ekki virðisaukaskatt af laxveiði. Þau rök falla bara dauð. Að sjálfsögðu höfum við efni á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Við getum borgað fyrir hana með því bara að hætta að undanskilja lax- og silungsveiði í ám landsins frá virðisaukaskatti. Það mundi jafnframt gera skattinn miklu skilvirkari vegna þess að undanþágur samkvæmt hæstv. fjármálaráðherra gera virðisaukaskattinn óskilvirkan. Þarna getum við náð markmiði ríkisstjórnarinnar varðandi skilvirkni skattheimtu, náð inn þessum peningum og haldið þjóðaratkvæðagreiðslu á hverju ári þannig að þau rök eru algjört ómark.

Þá vilja menn meina að þetta sé bara skoðanakönnun, bara ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er rétt, þarna færi fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Við yrðum ekki að fylgja niðurstöðunni. Þá fengjum við líka bara að sjá hvort menn líti virkilega ekki á það sem sannfæringu sína að þjóðin eigi að fá að ráða í svona stórum málum. Þá er það kannski sannfæring sumra manna.

Það sem við stöndum frammi fyrir er að allir eiga rétt á að koma að ákvörðunum sem þá varða. Ákvörðun um hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðum er ákvörðun sem varðar alla þjóðina. Þjóðin á rétt á að fá að koma að henni. Mikill meiri hluti landsmanna vill fá að koma að þeirri ákvörðun. Allir flokkar lofuðu því nema mögulega Framsóknarflokkurinn — ef hann vill vera með orðhengilshátt — að farið skyldi í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður og hérna liggur fyrir þingsályktunartillaga um að við gerum nákvæmlega það.