144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:12]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið á dagskrá. Ég var reyndar ekkert endilega sannfærð um að það hefði átt að kjósa um að fara í aðildarviðræður, það hefur hvergi verið gert, en úr því að málin eru komin þann hnút sem þau eru í dag held ég að þetta sé eina færa leiðin, enda hafa svo sem allir flokkar talað fyrir því að þjóðarvilji ráði í málinu þannig að þá er ekki eftir neinu að bíða.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á og menn hafa ítrekað talað um að ekki hefði átt að fara í þennan leiðangur nema spyrja þjóðina. Reyndar var þjóðin spurð í kosningum 2009, getum við sagt, kosinn var flokkur sem hafði það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hann hlaut afgerandi kosningu. Nóg hefur maður nú heyrt um það í þingsal, sérstaklega hjá Framsóknarflokknum, að hér hafi orðið kosningar árið 2013 og vísað í það meira og minna í öllum þeim ákvörðunum sem Framsóknarflokkurinn tekur núna að hann hafi verið kosinn til þess að gera hitt og þetta. Var þá ekki Samfylkingin kosin árið 2009 til þess að hefja aðildarviðræður að Evrópusambandinu get ég spurt. Hún var í ríkisstjórn með öðrum flokki og Alþingi samþykkti þessa brösóttu vegferð, sem síðar varð, en eftir sem áður var þetta samþykkt á Alþingi og ekki hægt að gera lítið úr því.

Ég skal viðurkenna það að ég hefði viljað að VG hefði staðið sig betur í þessu máli. Mér fannst það heldur seint í rassinn gripið að samþykkja það á flokksfundi eða þingi rétt fyrir kosningar 2013 að flokkurinn vildi klára viðræðurnar. Það var ekki gott, en svona var það. Mikið var kallað eftir því á síðasta þingi að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og endurspeglaðist þar lýðræðisást þingmanna. Þess vegna skilur maður ekki alveg af hverju það er allt í einu þannig núna að það þurfi ekkert að spyrja þjóðina. Þetta er þjóðarvilji þegar það á við, þegar það hentar. Eins er vísað í það sem fór fram á síðasta kjörtímabili, en mér finnst það í raun ekki koma málinu við. Við þurfum bara að horfa á hvernig staðan er núna í dag og hvert verður framhaldið.

Mér finnst þetta vera risastórt mál. Ég vil sjá samninginn, ég vil sjá hvernig fer með sérstaklega sjávarútvegskaflann og landbúnaðarkaflann líka. Ef þeir eru ásættanlegir tel ég að hagsmunum okkar og ekki síst barnanna minna sé betur borgið innan ESB í samvinnu og samstarfi við okkar helstu vina- og nágrannaþjóðir. Kannski sérstaklega vegna þess að við ráðum ekkert sérstaklega vel við að halda úti einum minnsta gjaldmiðli heims, íslensku krónunni, þótt sumum finnist það reyndar ganga ágætlega. Ég er ekki sammála því. Hér kvartar fólk undan háum lánum, undan verðtryggingu, háum fjármagnskostnaði. Við sjáum að fyrirtæki sem geta gert upp í evrum gera það. Mörg fyrirtæki eru jafnvel að flýja land. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál og furðu lítið um það rætt og ég sé ekki hvaða framtíðarplan stjórnvöld hafa. Það er sem sagt að vera áfram með krónuna, reyna að losa um höftin og afnema verðtrygginguna, það er allt og sumt. Mér finnst það ekki beysið plan og ég held að það skipti mjög miklu máli að við getum tekið upp gjaldmiðil sem er raunverulega gjaldgengur í viðskiptum við önnur lönd. En ef fólki finnst vaxtaokur og gengisáhætta ásættanlegt verður það að vera þannig, en ég er ekki þar.

Hér hefur verið komið inn á svik, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins sem ítrekaði það fyrir kosningar að þjóðin ætti að hafa eitthvað um þetta mál að segja. Mér finnst umræðan alveg ótrúleg, þetta er orðhengilsháttur og menn teygja sig ansi langt. Það vill nú svo vel til að umræður fyrir kosningar voru teknar upp þannig að það heyrist nákvæmlega hvað fólk segir. Við höfum áhyggjur af því á Alþingi að álitið á okkur stjórnmálamönnum sé ekki mjög mikið. Þá ættum við kannski að byrja á því að segja það sem við meinum og lofa ekki upp í ermina á okkur.

Þó að maður geti sagt að þetta sé kannski ekki mitt vandamál og Sjálfstæðisflokkurinn verði að eiga það við sína kjósendur ef hann svíkur kosningaloforð þá er það nú samt þannig að okkur setur öll niður þegar stjórnmálamenn haga sér með þessum hætti. Mér finnst þetta pínlegt og ég skil ekki að kjósendur flokksins sætti sig við þetta. En nú höfum við tækifæri til þess að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og koma því þannig fyrir að þjóðin hafi eitthvað um það að segja hvort aðildarviðræðum verði slitið eða þeim verði haldið áfram.

Mig langar aðeins að vitna í pistil, gamlan pistil reyndar, sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir setti á heimasíðu sína. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ísland er lýðræðisríki þar sem allar skoðanir eru leyfðar og því á fólkið í landinu að segja sitt álit áður en lengra er haldið. Segi þjóðin já í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda eigi aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu áfram fær ríkisstjórnin skýrt umboð — en hafni þjóðin aðlögunarferlinu þá verður ekki lengra haldið — kröftum og fjármagni verður þá beitt innan lands. Þetta er lýðræðisleg sáttaleið sem ríkisstjórnin getur ekki hafnað.“

Ég get eiginlega, fyrir utan þetta með aðlögunarferlið, gert þessi orð að mínum. Við getum ekki í raun hafnað því að samþykkja þingsályktunartillöguna og láta þjóðina hafa síðasta orðið í þessu máli.