144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er aldeilis til í að ræða kosti og galla Evrópusambandsins í þessum þingsal. Það var einmitt það sem við vorum að reyna að gera og rétt byrjuð að gera þegar stjórnvöld hentu fram þingsályktunartillögu um að slíta viðræðunum þannig að okkur gafst ekki einu sinni tími til þess, þannig að það sé sagt.

Ég er heldur ekkert sammála því að við eigum bara að kjósa um það hvort við viljum ganga í ESB og að það séu engar undanþágur eða um ekkert að semja. Það eru ýmsar undanþágur, heimskautasamningar í tengslum við landbúnað og einhverjar undanþágur hafa Maltverjar fengið vegna sjávarútvegs. Eru Danir ekki með undanþágu vegna sumarhúsa í eigu erlendra aðila? Bara svo að ég tíni það til sem ég man núna, ég er ekki sérfræðingur í þessum málum. Það eru ýmsar undanþágur og sérstaklega gæti það átt við hvað varðar sjávarútveg á Íslandi þar sem við erum í algjörri sérstöðu. Það hefur aldrei verið samið við land sem á jafn mikið undir sjávarútvegi. Þess vegna væri mjög fróðlegt, þó ekki væri annað, að fá að sjá niðurstöðuna.

Ég sé ekki af hverju við megum ekki klára þessar samningaviðræður, við erum komin mjög langt. Ég skil ekki hvað menn óttast í þessari umræðu. Eru sérhagsmunirnir svo rosalega sterkir og ríkir hér á landi að menn gera allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir að við fáum að sjá samninginn í sjávarútvegi og í landbúnaði? Ég held reyndar að stefna Evrópusambandsins í landbúnaði sé vænlegri til árangurs en sú sem við höfum verið með hér á Íslandi. Ég held að það séu tækifæri í því fyrir bændur og fyrir okkur að verða aðilar að sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.

Fáum að sjá samninginn. Ég hvet hv. þingmann, ef hann veit nákvæmlega hvernig hann lítur út og hvernig sjávarútvegskaflinn kemur út, til að skrifa það niður. Þá getur hann sagt „I told you so“ eftir nokkur ár.