144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að spurningunni um lýðræði á Íslandi þá verður maður fyrst að spyrja hvar eigi að byrja, hvar eigi að byrja að kvarta, vegna þess að framferði þessarar ríkisstjórnar gagnvart lýðræðinu á Íslandi er farið að mynda mjög skýrt munstur og þetta munstur er að fara sífellt í átt frá lýðræðinu. Þá er ég ekki bara að tala um svikin kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, en líka Framsóknarflokksins ef út í það er farið. Í fjölmiðla hefur komist bréf sem var sent sérstaklega til Framsóknarflokksins þar sem spurt var sérstaklega út í það hvort Framsóknarflokkurinn mundi stuðla að þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og svarið var já. Það var afdráttarlaust. En það er einhvern veginn þannig að í kringum kosningar vilja menn oft bara segja það sem þarf til þess að ná völdum. Var það vissulega tilfellið þegar kom að Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Hér er í sjálfu sér ekki bara um að ræða Evrópusambandið heldur það hvernig við ætlum að hafa lýðræðið á Íslandi til frambúðar. Ef það er í lagi að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu og svíkja það og reyna að svíkja það með því að setja tillögu um slit fyrir þingið og klára það mál ekki og reyna þá að slíta viðræðunum viljandi í trássi að því er virðist við þingið, sem kemur auðvitað ekki í ljós fyrr en við afgreiðslu máls, og sannanlega í trássi við vilja þjóðarinnar, þá stöndum frammi fyrir miklu djúpstæðara og alvarlegra vandamáli en spurningunni um það hvort við ætlum að ganga í ESB eða ekki. Hvað höfum við að gera við sjálfstæði ef lýðræðið á ekki að gilda?

Mikið hefur verið rætt um efnislegt innihald Evrópusambandsins og er það gott og blessað, en sömuleiðis hefur verið rætt um þá spurningu hvort það hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til að byrja með um að hefja aðildarviðræður eða ekki. Það gleður mig að sjá stjórnmálamenn viðurkenna það eins og hv. 3. þm. Reykv. n. hefur gert að eftir á að hyggja hefði ákvörðunin kannski átt að vera önnur en hún var. Það er eðlilegt. Það er stórfurðulegt ef manneskja lítur aldrei um öxl og sér ekki eitthvað sem betur hefði mátt fara í eigin fari. Við stjórnmálamenn eigum að taka það til okkar að við eigum að geta skipt um skoðun og við eigum að geta lært af reynslunni ellegar erum við stjórnmálamenn sem geta ekki lært og þá erum við ekki hæf til nokkurs hugverks að mínu mati, hvort sem það er innan eða utan stjórnmálanna.

Með þeim fyrirvara langar mig að stinga upp á því að það hefði verið betra að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til að byrja með. Þrátt fyrir að hv. 5. þm. Reykv. n. geti kannski alveg farið út í það að ræða hverslags lagaleg vitleysa það hefði verið að hans mati, þá væri umboðið skýrt. Kosningabaráttan 2012 og 2013 hefði verið öðruvísi. Hún hefði ekki bara snúist um það hvað einstaka flokkur vildi, heldur hvað þjóðin sjálf vildi. Það hefði verið öðruvísi kosningabarátta. Hún hefði verið á öðrum forsendum, betri forsendum að mínu mati. Að því gefnu að þjóðin hefði viljað fara inn þá hefði spurningin verið: Hvaða flokkur treystir sér til þess að gæta íslenskra hagsmuna í viðræðum? Allir flokkar ættu að segja „við“ undir þeim kringumstæðum. En ef þjóðin hefði sagt nei, og það hefði vel getað gerst eftir ítarlegar umræður vænti ég ef málstaðurinn er svona glataður, þá hefði þetta ekki verið neitt mál, þá stæðum við ekki hér og værum að velta fyrir okkur eðli lýðræðisins í sambandi við þetta mál.

Ég legg til að við lærum af reynslunni, að við reynum að hafa umboðið skýrt og við reynum að hafa það á hreinu hvað það er sem þjóðin vill eftir allt saman. Ég veit ekki um aðra stjórnmálamenn, en ég vil helst ekki stjórna eftir skoðanakönnunum. Það er mjög slæm leið, skoðanakannanir eru mjög brigðular. Það er hins vegar hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru faglegar og njóta meiri virðingar en einstaka skoðanakönnun einstaka fjölmiðils eða fyrirtækis. Við getum alveg leyft þjóðinni að taka einstaka ákvarðanir í þessu landi, ekkert alltaf um allt, en af og til um eitthvað. Þegar 53.555 manns eða sem nemur 22,5% kjörbærra manna krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert málefni, hvenær á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu ef ekki nákvæmlega þá?

Þetta allt nefni ég fyrir utan framferði hæstv. utanríkisráðherra gagnvart þinginu, en það mál virðist því miður vera fokið út í veður og vind og við erum hætt að tala um hér, og fyrir utan vanvirðingu ríkisstjórnarinnar gagnvart þinginu sem er alveg sjálfstætt vandamál. Maður er orðinn vanur því að stjórnmálamenn kæri sig kollótta um vilja alþýðunnar milli kosninga, það er svo sem normið. Því eru lýðræðisumbætur eins og ég hef áður talað um svo mikilvægar. En þegar kemur að þessu máli þá er þetta afskaplega skýrt. Þetta er í rauninni fáránlega einfalt mál. Spurningin er einföld: Hver á að ráða? Það á enginn að hika við að svara þeirri spurningu. Þjóðin. Þjóðin á að ráða.

Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn að vera hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslum og auknu lýðræði þegar svo vill til að þjóðin er sammála þeim. Allir eru til í slíkt lýðræði. Það eru allir til í kosningar þegar allir vilja kjósa það sama og maður sjálfur. Það eru allir til í tjáningarfrelsi ef það þýðir frelsi til að segja það sem stjórnmálamennirnir sjálfir eru sammála, en á sama hátt og tjáningarfrelsi þýðir rétturinn til að hafa rangt fyrir sér þá felur lýðræðið í sér rétt þjóðarinnar til að vera ósammála stjórnmálamönnum landsins og ráða samt. Ef hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til að vinna af heilindum að hagsmunum Íslands í samningaferli, gott og vel, þá getur hún bara dregið lappirnar fram að næstu kosningum og spurningin verður þá hin rétta: Hvaða flokkar treysta sér til þess að vinna að því verki sómasamlega? Að því gefnu að þjóðin vilji halda áfram viðræðum, sem þingmenn stjórnarmeirihlutans virðast ekki átta sig á að sé raunhæfur möguleiki. Það er alveg möguleiki að þjóðin mundi segja nei, við skulum ekki halda áfram. Þá væri málið bara búið. Það tekur því ekki að mínu mati að tala um evru og allt það fyrr en þetta mál er komið á hreint, hver á að ráða.

Nú hafa menn spurt að því hvers vegna þetta mál ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svarið er skýrt, það er borðleggjandi og ætti að vera öllum ljóst. 22,5% kjörbærra manna, 53.555 undirskriftir. Ef ekki ætti að kjósa um afdrif þessa máls, hvað þá, spyr ég? Hvað þá? (FSigurj: Flugvöllinn, 70 þús. manns.) Hv. þm. Frosti Sigurjónsson nefnir flugvöllinn, 70 þús. manns, já, kjósum um það. Afgreitt.

Það er í raun og veru ekki fleira sem þarf að segja um málið í bili nema kannski í seinni ræðu ef tilefni þykir til eða í andsvari sem ég býst við að komi innan skamms. Ég hef ekki fleiri orð að segja um þetta að svo stöddu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.