144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurninguna, sem var sú hvort mér þætti lýðræðislegt að þjóðin kjósi um að ríkisstjórn fari í viðræður um aðild sem hún vill ekki, þá er svarið einfaldlega: Já. Ég trúi því að þjóðin ráði í þessu landi. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að vinna að því sem þjóðin ætlast til að hún geri þá getur hún bara sagt af sér og fengið betra fólk í verkið.

Að því sögðu þá væri verkefnið sem við stöndum frammi fyrir allt öðruvísi, ef lögmætið hefði verið skýrt frá upphafi, þ.e. ef það hefði verið skýrt frá upphafi hvort þjóðin vildi yfir höfuð fara í viðræðurnar eða ekki. Seinustu alþingiskosningar hefðu verið öðruvísi. Og ef við samþykkjum þá góðu tillögu sem hér liggur fyrir þá verða næstu kosningar öðruvísi. Næstu kosningaloforð verða öðruvísi. Orðræðan þá verður öðruvísi, „inshalla“, leyfi guð, með leyfi forseta.

Seinni spurning hv. þingmanns, hvort ég telji lýðræðislegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu þegar fyrir liggur að fyrri stjórn hefði hætt við — fyrri stjórn setti umræðurnar á ís tímabundið yfir kosningar sem var hennar ákvörðun, en hv. þingmaður hlýtur að vera meðvitaður um það að hér hefur trekk í trekk verið reynt að slíta viðræðunum, núllstilla þær eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði. Það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að reyna. Þessi tillaga er viðbrögð við því. Þessi tillaga hefði ekki komið fram ef hæstv. utanríkisráðherra hefði sýnt þinginu þá lágmarksvirðingu að spyrja þingið eins og hann gerði í fyrra og klúðraði reyndar með eftirminnilegum hætti eins og umræddu bréfi síðar meir. En ef allir gætu einfaldlega sammælst um að láta þetta mál í friði, láta það bíða næstu kosninga og halda þjóðaratkvæðagreiðslu rétt fyrir kosningar eitthvað því um líkt, þá værum við ekki hér að ræða þetta mál nú. Það eru aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem gera að verkum að við þurfum að ræða þetta hér og nú.