144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður er að stinga upp á því — nú vil ég ekki leggja honum orð í munn en þannig skildi ég hann — að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu nær lokum kjörtímabilsins og höldum næstu kosningar byggðar á þeirri spurningu hvort flokkar treysti sér í það, þá þætti mér það vera hugmynd sem er vel þess virði að ræða. En hvort slíta eigi viðræðunum eða að taka þráðinn upp aftur eða halda þessu í frosti, því á þjóðin að svara. Það er í grundvallaratriðum málið.

Nú er það þannig að hv. þingmaður getur lagt til breytingartillögu við þá tillögu sem hér er lögð fram og ég hvet hann til að gera það ef hann telur að tímasetningin sé óheppileg eða að spurningin sé óheppileg eða eitthvað því um líkt. Þannig á lýðræðið að virka hér á hinu háa Alþingi að við leggjum tillögur fram og rökræðum þær — það er teorían — og greiðum síðan atkvæði um þær. Það gæti vel komið til að meiri hluti þingsins mundi styðja tillögu sem væri útfærð pínulítið öðruvísi. Það gæti vel gerst. (BN: … með formlegum hætti.) Hvaða breyting svo sem hv. þingmanni dettur í hug, hún kæmi þá hér til umræðu og í gegnum þingið, hún væri ekki með sama brussuskap og var tilætlan hæstv. utanríkisráðherra.

Að því sögðu tel ég sömu forsendur núna til þess að taka þessa ákvörðun eins og áður. Það hafa komið út margar skýrslur. Við getum alveg rætt um sjávarútvegsmálin, landbúnaðarmálin og ýmislegt fleira sem varðar málið. Ég sé ekki að það sé neinn upplýsingaskortur sem þjóðin þurfi að eiga við varðandi ákvörðun um það hvort halda eigi áfram umræðum eða ekki. Ég sé engan upplýsingaskort þar. Þetta er einfaldlega spurning um það hvort fólk vilji þetta eða ekki. Í sjálfu sér er sú spurning frekar einföld þótt spurningar sem vakna í kjölfarið, þegar samningum væri lokið, yrðu flóknari. Gott og vel, enda ætti þá að vera önnur þjóðaratkvæðagreiðsla.