144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu formanna fjögurra stjórnmálaflokka á Íslandi um að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Ég vil segja í byrjun að mér finnst tillagan vera útrétt sáttarhönd til stjórnarflokkanna, en tveir fulltrúar stjórnarflokkanna sitja hlið við hlið mér á vinstri hönd og hlusta á umræðurnar. Þetta er tillaga okkar og sáttatilboð um þjóðaratkvæði, að við ljúkum þessum deilumáli með þjóðaratkvæðagreiðslu 26. september næstkomandi, spurningin er orðuð hér, þar sem þjóðin fær að segja til um hvort viðræðunum skuli haldið áfram eða ekki með því að krossa við annaðhvort já eða nei.

Mér er það til efs að í vetur hafi komið fram tillaga á Alþingi sem nýtur jafn mikils stuðnings í öllum flokkum og þessi. Ef þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks færu eftir sannfæringu sinni, svo að ég tali nú ekki um loforð forustumanna þeirra, ætti þessi tillaga að verða samþykkt samhljóða á Alþingi. Ég vil segja að ég ber þá von í brjósti að við þinglega meðferð málsins, þegar tillagan fer til utanríkismálanefndar, tali fulltrúar allra flokka, sama hvort það eru nefndarmenn eða formenn flokkanna, sem væri ekki verra, sig að niðurstöðu og samþykki tillöguna og samþykki um leið framlag til hópa sem styðja og eru á móti til að kynna málið og efni til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það sé brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar að við fáum svarið við þessari spurningu. Skoðanakannanir segja að mikill meiri hluti þjóðarinnar vilji halda áfram viðræðum en mikill meiri hluti þjóðarinnar sé andvígur aðild og þá þurfum við að fá samning til að leggja fyrir þjóðina og veita fjármagn úr sameiginlegum sjóði til andstæðinga og stuðningsmanna til að kynna málið og greiða atkvæði og ljúka þessu deilumáli. Nóg höfum við af öðrum deilumálum.

Hvers vegna segi ég þetta um víðtækan stuðning? Það má eiginlega fara aftur til kosninga árið 2009 þegar byrjað var að ræða sérstaklega um Evrópusambandið, svo að ég tali ekki um kosningarnar árið 2013, en það er mjög merkilegt sem formaður Framsóknarflokksins, þá nýkjörinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi hæstv. forsætisráðherra, sendi í bréfi til kjósenda tveimur dögum fyrir kosningarnar þá. Bréfið mátti víst ekki fara fyrr út vegna þess að það mátti ekki fréttast úti á landi hvað stæði í því. Fyrirsögnin er: „Evrópa fyrir okkur öll.“ Í bréfinu stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkmið þeirra viðræðna. Framsókn hefur sett það sem skilyrði fyrir aðild að fullveldi og óskorað forræði yfir auðlindum þjóðarinnar verði grundvallarkrafa í þeim viðræðum, auk skilyrða sem lúta m.a. að hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs. Fordæmi eru fyrir slíku í samningum annarra þjóða við Evrópusambandið og því algerlega rangt að halda því fram að þessar kröfur hamli því að af aðildarsamningi geti orðið.“

Virðulegi forseti. Ég var að lesa upp bréf sem formaður Framsóknarflokksins sendi öllum kjósendum á höfuðborgarsvæðinu árið 2009. Þetta er ekki bréf frá formanni Samfylkingarinnar. Ef maður fer svo yfir í næsta stig, sem var nefndarálit sama þingmanns þegar hann var óbreyttur þingmaður í utanríkismálanefnd, hæstv. forsætisráðherra, og les nefndarálitið sem þá kom fram er þetta þannig að hann og Framsóknarflokkurinn voru þeirrar skoðunar að við ættum að óska eftir viðræðum og fara í aðildarviðræður. Þar að auki var auglýst í strætóskýlum rétt fyrir kosningar árið 2009 að Framsóknarflokkurinn vildi ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Síðan er auðvitað hægt að fara út í það sem var rætt í síðustu kosningum, þar sem formaður Framsóknarflokksins lofaði því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um hvort halda ætti áfram eða ekki. Þarna skil ég við Framsóknarflokkinn hvað þetta varðar, ég vildi geta rætt þetta lengur en á 10 mínútum getur maður það ekki, og fer yfir í loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar. Þar var flottur kosningabæklingur gefinn út og á bls. 5 í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningar 2013 stendur: „Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“ Svo er það það sem oddvitar Sjálfstæðisflokksins sögðu í kosningaþáttum og blöðum fyrir kosningarnar 2013, þeir lofuðu því allir að stefna Sjálfstæðisflokksins væri að þetta mál yrði útkljáð með þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram viðræðum eða ekki. Ég fullyrði að þingsályktunartillagan sem við erum að ræða hefur mjög víðtækan stuðning miðað við loforð forustumanna stjórnarflokkanna. Við vitum að Samfylkingin og Björt framtíð vilja halda áfram aðildarviðræðunum. Vinstri grænir vilja halda áfram viðræðum, þó að þeir séu á móti, og Píratar hafa lýst því yfir líka. Af hverju má þetta mál ekki fá þinglega meðferð, vinnu sem kannski leiðir til þess að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn komast inn á þau loforð sem þeir gáfu kjósendum og kosið var um og við hin sem samþykktum að ganga beint til viðræðna gæfum þá eftir hvað það varðaði og við vísuðum þessu til þjóðarinnar? Allir forustumenn Sjálfstæðisflokksins, í öllum kjördæmum, lofuðu því fyrir kosningar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lofaði því, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lofaði því. Það er þetta sem þjóðinni gremst, sú leið sem er farin núna með dæmalausum fjallabaksleiðum, sem er hið margfræga bréf sem utanríkisráðherra skrifaði Evrópusambandinu og Evrópusambandið sjálft hefur lýst yfir að það taki ekki mark á, enda erum við enn þá skráð sem aðildarumsóknarríki.

Það er þjóðarinnar að ákveða þetta. Vísum því í þjóðaratkvæði, unum við niðurstöðuna, höldum áfram ef þjóðin segir já og hættum ef þjóðin segir nei. Það er grundvallaratriði og ég ber þá von í brjósti að hægt verði lyfta hinni pólitísku umræðu upp fyrir það þref og þvarg og ósamstöðu sem hér ríkir oft, en til þess þurfa forustumenn ríkisstjórnarflokkanna að ákveða að efna loforðið sitt. Þá verður hægt að fara í þessa atkvæðagreiðslu, skoðanakönnun, um leið.

Ég ætla að nota tvær síðustu mínútur mínar til að lýsa yfir þeirri skoðun sem áður hefur komið fram, að eitt brýnasta verkefni við endurskoðun stjórnarskrárinnar er að setja ákvæði í stjórnarskrá um að minni hluti alþingismanna, 1/3, geti ákveðið að vísa máli til þjóðarinnar eða að ákveðinn hundraðshluti kjósenda í landinu geti óskað eftir því að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef það væri þannig hefði verið hægt að vísa hinni dæmalausu tillögu sem flutt var á síðasta þingi og dagaði uppi, dó vegna þess að það var ekki samstaða um hana heldur í stjórnarflokkunum, til þjóðarinnar og þá þyrftum við ekki að þrefa um það núna hvort fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sagði, að þetta sé eitt brýnasta verkefnið við endurskoðun stjórnarskrárinnar ásamt því að setja í hana ákvæði um að auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar. Ég trúi ekki öðru miðað við þau loforð sem formaður Framsóknarflokksins gaf fyrir kosningar árið 2009, sem hann gaf þá um stjórnarskrá o.fl. þegar minnihlutastjórnin var mynduð, en að hægt sé að rifja það upp og að stjórnarherrarnir geti staðið við það loforð sem þeir gáfu þjóðinni og þjóðin kaus þá meðal annars út af. Þetta er grundvallaratriði og það þýðir ekkert fyrir sjálfstæðismenn að koma og segja: Þjóðin kaus og kaus okkur til valda með 38 þingmenn og þessir flokkar eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Loforðið var um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram eða ekki og það er það sem er verið að setja fram hér. Þetta er að mínu mati prófsteinn á stjórnarherrana tvo, Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formenn þessara tveggja flokka, hvort þeir stíga fram og segja: Já, við meintum eitthvað með því sem við sögðum. Við vorum ekki að skrökva að þjóðinni til að afla atkvæða.