144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við þessar umræður, fyrir að koma í andsvar við mig og leyfa mér að halda áfram að ræða um þetta mál.

Fyrir það fyrsta, aðildarviðræðum hefur ekki verið hætt. Þeim var frestað og vel hefur verið farið yfir það hér hvers vegna gekk málið ekki betur en það gerði á sínum tíma, við höfðum vonir um að það gæti klárast á styttri tíma og hægt yrði að leggja samning fyrir þjóðina á síðasta kjörtímabili. Það var meðal annars vegna makríldeilunnar og vegna þess að samningsmarkmiðin í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum voru eins og þau voru undir hatti hæstv. ráðherra Jóns Bjarnasonar.

Umsóknin er inni um aðildarviðræður. Til að svara því sem hv. þingmaður spyr mig um, að ganga til atkvæða um það hvort við viljum ganga í Evrópusambandið eða ekki, nei, ég er ekki sammála því vegna þess að ég vil fá að vita hvað er í boði, hvers konar samning getum við fengið, hvað mun standa um sjávarútvegsmál, hvað mun standa um landbúnaðarmál, svo ég taki bara þessa tvo málaflokka. Hvað stendur í því? Öðruvísi er ekki hægt að taka upplýsta ákvörðun. Við getum ekki, ég og hv. þm. Brynjar Níelsson, sent inn umsókn í einhvern félagsskap sem við vitum ekkert hvað býður upp á. Við mundum kynna okkur það fyrst áður en við mundum ákveða okkur. Það er nákvæmlega þetta sem er í gangi. Það er nákvæmlega það sem þarf að draga fram í aðildarviðræðum, í samningaviðræðum, hvað er í boði. Er samningurinn ásættanlegur fyrir Ísland og íslenska þjóð eða er hann það ekki? Ég segi fyrir mitt leyti, það er ekkert nýtt og ég hef sagt það áður í ræðustól, það fer algerlega eftir því hvað stendur í samningnum hvort ég mundi segja já eða nei. Það liggur í augum uppi. Það er ekki hægt að gefa sér neitt slíkt í byrjun.

Þetta er mitt fyrsta svar og ég ítreka það sem ég segi. Ég er ekki sammála því og það er skoðun m.a. Evrópusambandsins og fleiri að aðildarviðræðum hafi ekki verið hætt. (Forseti hringir.) Þær liggja í láginni og bíða næstu kosninga og næstu ríkisstjórnar nema þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.