144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega hluti af því sáttatilboði sem ég nefndi og samþykkt þessarar tillögu sem við ræðum hér að flokkarnir komist að samkomulagi um að leyfa þjóðinni að kjósa um hvort við eigum að halda áfram eða ekki. Og ef þjóðin segir eins og skoðanakannanir benda til að hún vilji láta kanna þetta betur og fá samning til að leggja fyrir þjóðina eru það auðvitað líka skilaboð til hinna pólitísku flokka. Sameinist og búið til samninganefnd sem allir eiga aðild að og farið í viðræður. Það yrði að sjálfsögðu til bóta fyrir málið að efasemdarmenn eða jafnvel andstæðingar væru í þeim hópi.

Hv. þingmaður ræðir um hvað eigi að kjósa og hvort viðræðum hefur verið hætt eða frestað og talar um ómöguleika. Ég tel mig vera búinn að svara því. Það er enginn ómöguleiki við þetta. Ómöguleikinn er eiginlega bara í hugum forustumanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sennilega út af því að skoðanakannanir sýna að meiri hluti þjóðarinnar vill halda áfram, þess vegna hefur þessu verið breytt.

En mig langar í lokin að geta aftur um kosningabækling og loforð Sjálfstæðisflokksins. Ég á hér mynd af honum með fallegum bláum lit. Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB um þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Svo er vitnað í það að menn skuli lesa bls. 5 í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningar 2013. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður, sem er sókndjarfur mjög og var það örugglega í kosningabaráttunni þó að ég hafi ekki hitt hann þar, ég var í mínu kjördæmi og hann í sínu, hafi tekið þátt í að dreifa þessum kosningabækling og telja kjósendum trú um það og segja þeim að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað þessu. Áður fyrr mátti treysta orðum forustumanna Sjálfstæðisflokksins. Ég vona að það sé svoleiðis enn.