144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Já, við erum hér í þessari umræðu vegna þess að ríkisstjórnin í landinu heldur því fram að í kosningunum 2013 — eftir þær kosningar fékk ríkisstjórnin mikinn meiri hluta hér á Alþingi — hafi hún fengið umboð til að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Fyrir ári lagði hún fram þingsályktunartillögu um þau slit sem leiddi til þess að rúmlega 53 þús. manns skrifuðu undir yfirlýsingu um að þeir, þessir Íslendingar, vildu ekki að aðildarviðræðunum yrði slitið. Fyrr í vetur, eftir jólin, fór hæstv. utanríkisráðherra í víking í austurveg með bréf í farteski sínu þar sem ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún hefði slitið þessum viðræðum.

Ákvörðun um að hefja þessar viðræður var hins vegar tekin hér á Alþingi og við lítum þannig á að ekki sé hægt að slíta þeim nema á Alþingi. Þess vegna leggjum við til að áréttað verði að skilningur ríkisstjórnarinnar á því að hún hafi meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig í því að slíta viðræðunum sé ekki réttur. Þess vegna hafa forustumenn fjögurra stjórnarandstöðuflokka hér á Alþingi lagt fram tillögu um að haldin verði um málið þjóðaratkvæðagreiðsla þann 26. september, held ég að sé.

Stjórnarþingmenn, og þá kannski sérstaklega sjálfstæðismenn, vísa gjarnan í þessari umræðu til þess að fara hefði átt í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin var lögð fram og spyrja okkur, sérstaklega okkur samfylkingarfólk, hvers vegna við höfum ekki gert það. Svo að ég svari því nú alveg beint þá stóð það aldrei til í mínum huga. Í kosningabaráttunni árið 2009 var það eitt aðalmál Samfylkingarinnar, og ég talaði mjög skýrt og greinilega fyrir því, að lögð yrði fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að þjóðin kysi um samning þegar hann lægi fyrir. Það stóð aldrei til og því hafði aldrei verið lofað að umsóknin sjálf yrði lögð undir þjóðina. Það var hins vegar ljóst að ýmsir, og þá kannski aftur sérstaklega sjálfstæðismenn, voru mjög áfram um að fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Ég held að þar hafi tvö sjónarmið komið fram. Annars vegar voru það sjónarmið andstæðinga þess að sótt yrði um aðild, þeir litu svo á að það væri svo stórt skref að umsókn lægi fyrir að freista yrði þess með öllum ráðum að koma í veg fyrir það, rétt eins og andstæðingar þess að aðildarviðræðum verði lokið telja það nú forgangsverkefni að taka umsóknina út af borðinu. Á sama hátt vildu, árið 2009, andstæðingar aðildarviðræðna ekki að umsóknin færi til Evrópusambandsins og vildu freista þess að koma í veg fyrir það með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í Sjálfstæðisflokknum var á hinn bóginn líka fólk sem vildi leggja þessa umsókn fram en þurfti skjól. Það fólk kom og sagði við okkur sem vorum mjög áfram um þetta: Nú skuluð þið samþykkja þessa tillögu okkar um þjóðaratkvæðagreiðslu og hún verður örugglega samþykkt. En því hafði aldrei verið lofað og það var náttúrlega alls ekki víst að hún yrði samþykkt. Síðan getum við líka velt því fyrir okkur, í ljósi þess hvernig fólk hefur umgengist þjóðaratkvæðagreiðslur, hvort það hefði skipt nokkru máli þó að samþykkt hefði verið í þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja þessa umsókn fram. Við getum velt því fyrir okkur og ég efast mjög um það.

Það sem skiptir máli núna er að fyrir kosningarnar 2013 var Evrópumálunum ýtt út af borðinu. Þess vegna kaus fólk ekki um Evrópumál í þeim kosningum. Menn sögu að ekki yrðu stigin nein afdrifarík skref í þessum efnum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ljóst núna að stjórnvöld ætla að ganga á bak þeirra orða sinna og þá mótmælir fólk og vill að stjórnmálamenn standi við orð sín. Þess vegna lít ég svo á að það séu ekki bara Evrópumálin sem eru undir heldur líka trúverðugleiki stjórnmálamanna sem kannski er miklu alvarlegra mál en Evrópumálin. Eða finnst okkur það ekki svolítið alvarlegt að ný stjórnmálaöfl séu kynnt til leiks undir þeim formerkjum að fólk vilji heiðarlega stjórnmálamenn? Mér finnst það alla vega alvarlegt og frábið mér þá einkunnagjöf að ég sé óheiðarleg. Mér finnst sjálfsagt að menn hafi skoðanir ólíkar mínum en mér finnst vont að vera sökuð um óheiðarleika. Mér finnst að sá merkimiði sé settur á okkur öll ef þeir sem nú fara með völdin ætla að halda áfram á þeirri braut sem þeir eru á í meðferð Evrópumálanna.

Við hljótum öll að hafa áhyggjur af því litla áliti sem Alþingi nýtur meðal þjóðarinnar, ekki vegna okkar hvers og eins heldur vegna þess að okkur er treyst fyrir því að fara með löggjafarvaldið og því fylgir mikil ábyrgð. Þeirri ábyrgð fylgir að fólk geti treyst orðum okkar. Sú ábyrgð er miklu stærri og meiri en stjórnmálaflokkar og hagsmunir þeirra. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er ábyrgðin mest hjá þeim sem fara með stjórn landsins, hjá meiri hlutanum hér á Alþingi. Ég vona því sannarlega að menn standi við orð sín um að taka ekki afdrifaríkar ákvarðanir í Evrópumálunum án þess að spyrja fólkið í landinu.

Við höfum öll lofað að gera það með einum eða öðrum hætti. Við í Samfylkingunni lofuðum því að aðildarsamningur yrði borinn undir þjóðina. Fyrir síðustu kosningar lofuðu núverandi stjórnarflokkar því að ekki yrðu stigin afdrifarík skref í Evrópumálunum án þess að það yrði borið undir þjóðina. Við hljótum öll að krefjast þess að þeir standi við þau orð sín, ekki bara almenningur heldur líka við hér þannig að ekki verði kastað rýrð á alla stjórnmálastéttina í landinu með þessu og þar með á Alþingi, þ.e. að hér vinni fólk sem ekki standi við orð sín.