144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:30]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnismikla ræðu. Hann kom meðal annars inn á forsendur og ástæður þess að halda þyrfti aðildarviðræðum áfram. Til hvers? Í tal barst vandi, vaxtakostnaður, gjaldmiðill, verðtrygging og kaupmáttur og hitt og þetta. Neyðin er svo mikil á Íslandi að lausnin er að sækja um í ESB.

En hvernig er ástandið í Evrópusambandinu? Það hefur breyst töluvert mikið frá því að umsóknin var lögð fram. Ég get vel skilið að á sínum tíma, þegar hér var allt í miðju hruni og í frjálsu falli, hafi mönnum hugkvæmst að það gæti verið lausn í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem þá var ekki eins langt komið inn í þá kreppu sem þar ríkir og nú. Þar er atvinnuleysi 12% að meðaltali en hér er það 4% í dag. Atvinnuleysi unga fólksins hleypur á tugum prósenta, ég held að það sé komið yfir 50% í Grikklandi. Neyðin er svo mikil í Grikklandi að það er lyfjaskortur, það líður yfir börn í skólunum og þau svelta. Þetta er í Evrópusambandinu. Grikkir eru með evruna.

Það er alltaf vont að verða fyrir áfalli en er ekki augljóst að það er enn verra ef maður er með sameiginlegan gjaldmiðil með Þjóðverjum, enn verra? Það sem þeir gera er að senda inn þríeykið. Þríeykið leggur til að opinberum starfsmönnum verði sagt upp, laun lækkuð, innviðir seldir, allt gert til að greiða bankamönnunum skuldirnar. Er þetta sæluríki hv. þingmanns? Ég spyr.