144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef aldrei talað um sæluríki ESB eða EU. Ég hef heldur ekki talað um Grikkland sérstaklega þegar ég er að bera Ísland saman við önnur lönd. Af hverju tökum við ekki Norðurlöndin? (FSigurj: Írland.) Af hverju tökum við ekki Norðurlöndin? (Gripið fram í.) Tökum Danmörku, Svíþjóð og Finnland. Ræðum Bretland. Ég veit að þeir eru með aðra gjaldmiðla en þeir eru bundnir af evrunni.

Hver er munurinn á því sem gerðist í Grikklandi og því sem gerðist hér? Hér féll kaupmáttur um 20–30% án þess að við værum spurð. Það varð að semja um slíka skerðingu í Grikklandi. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, það gekk mikið á vegna þess að menn láta ekki bjóða sér slíkt í landi þar sem miklir erfiðleikar voru fyrir. Hér er skerðing bara gerð með einu pennastriki, ákvörðunum þar sem fært er til á milli aðila, teknir milljarðar og hundruð milljarða hagnað í ákveðnum greinum á kostnað launþega. Er það svona gott? Er það svo gott að við tökum verðtrygginguna og hækkum lán tvöfalt í fimmta skipti fyrir mann eins og mig? Húrra fyrir því. Ég vil lausnir og ég vil tillögur.

Ég veit að hv. þingmaður hefur komið með tillögu, hann er einn um hana. (FSigurj: Þú mátt vera með.) Það er viðbúið að ég vilji skoða hana, enda er búið að finna einhvern farveg til að skoða hana, síðan tekur ríkisstjórnin ákvörðun um það. En ég vil líka fá að skoða þessa tillögu og við erum bara að biðja um að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin, að þjóðin fái að tjá sig og ákveða um framhaldið. Það verður enginn stjórnmálaflokkur, hvorki Samfylkingin né Framsóknarflokkurinn, sem fer með þjóðina inn í Evrópusambandið. Það ákveður þjóðin sjálf ef samningar nást. Er til of mikils ætlast að fá þetta upp á borðið til að skoða hvernig við getum afnumið verðtrygginguna, hvernig við getum fengið traustari gjaldmiðil? Er KPMG, sem nýbúið er að gera úttekt, bara tómir vitleysingar? Þeir segja að við munum til dæmis eiga auðveldara með að afnema höftin ef við höfum einhverja sýn á það að hér sé verið að innleiða nýjan gjaldmiðil og er evran nefnd í því samhengi.