144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir mælti fyrir fyrr í dag, en formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna eru flutningsmenn tillögunnar.

Svo við rifjum upp hvað stendur í tillögunni er hún svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 26. september 2015 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Valkostirnir við því eru annars vegar já og hins vegar nei.

Hér er ekki um að ræða tillögu um að taka efnislega afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, enda eru flutningsmenn tillögunnar úr ólíkum flokkum sem hafa ólíka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, heldur er tilgangurinn með þessu máli, eins og stendur í greinargerð með tillögunni, að bregðast við því að um er að ræða mál sem er af slíkri stærðargráðu að eðlilegt er að leita leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess.

Forsaga málsins er sú, eins og alkunna er, að með þingsályktun sem samþykkt var árið 2009 ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamninginn. Sú tillaga er enn í gildi. Fyrir síðustu alþingiskosningar var hins vegar ákveðið að gera hlé á viðræðunum fram yfir kosningar. Hæstv. núverandi ríkisstjórn ákvað svo að gera það ekki og lagði í fyrra fram tillögu til þingsályktunar um að draga fyrri þingsályktunartillögu til baka. Þá brá svo við að 53.555 undirskriftir bárust þar sem skorað var á Alþingi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar. Það fór svo að sú þingsályktunartillaga var aldrei afgreidd frá þinginu. Þá erum við eiginlega komin á þann stað þar sem kemur að bréfinu margfræga sem hæstv. utanríkisráðherra sendi til Evrópusambandsins, sem þegar upp er staðið breytir í raun engu um stöðu aðildarumsóknarinnar en hefur hins vegar haldið áfram að koma þessu máli í þann hnút sem það er nú komið í á Alþingi þar sem við, ég leyfi mér að segja hjökkum dálítið í sama farinu í umræðunni. Sú tillaga sem við ræðum í dag er viðbrögð við því sem á undan er gengið og er sett fram sem ákveðin málamiðlun í málinu milli þess annars vegar að slíta viðræðunum alfarið — eins og ég rakti áðan virðist hæstv. ríkisstjórn hreinlega ekki hafa treyst sér til að gera það, a.m.k. ekki með réttmætum hætti, með því að leggja fram tillögu þess efnis á Alþingi — og hins vegar þess að halda viðræðunum áfram. Eins og við höfum fengið að heyra í umræðum á þingi virðist ekki vera áhugi fyrir því heldur hjá hv. þingmönnum meiri hlutans eða hæstv. ríkisstjórn, þrátt fyrir þau orð sem féllu í aðdraganda kosninga um annað.

Ég er þeirrar skoðunar og mín trú er eftir að hafa hlustað á umræður í þinginu að það að leita milliliðalaust leiðsagnar hjá þjóðinni um hvað hún vilji gera í þeirri stöðu sem er komin upp, þ.e. hvort hún vilji taka upp þráðinn í viðræðunum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem yrði borinn undir þjóðina eða hvort hún vilji hætta aðildarumsóknarferlinu, sé það eina sem raunhæft er og vit í að gera í málinu þar sem við stöndum í dag. Að mínu viti gengur ekki að við höldum áfram að þrefa um málið hér fram og til baka án þess að komast að niðurstöðu. Ég held að við gætum verið að ræða ýmis önnur mál í staðinn fyrir að togast alltaf á um það hvort við eigum að halda áfram eða ekki. Nú leitum við bara til þjóðarinnar og fáum hennar vilja í málinu fram og högum okkur svo eftir honum.

Þetta segi ég þrátt fyrir að afstaða mín og hreyfingarinnar sem ég tilheyri á þingi sé að hag okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Við getum ekki verið í þeirri stöðu að vera sífellt að togast á um umræðuna heldur verðum við að halda áfram, ákveða hvað við ætlum að gera og taka síðan í kjölfarið á því umræðu sem passar við það sem komið hefur fram um vilja þjóðarinnar.

Að lokum vil ég segja að ég styð þessa þingsályktunartillögu sem ég tel vera góða málamiðlun og í rauninni það eina skynsamlega sem við getum gert miðað við þá stöðu sem málið er komið í. Ég vona þess vegna að hún verði samþykkt.