144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það áhugaverð nálgun hjá hv. þingmanni þegar hún dregur fram að óvenjumikill tími hafi farið í umræður um málsmeðferð á þessu þingi og það hafi komið henni á óvart. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að óvenjumikið hefur verið um það þennan veturinn og það er vegna þess að óvenjumikið hefur verið um ótrúlega framgöngu ríkisstjórnarinnar í meðferð mála.

Tökum sem dæmi rammaáætlun þar sem menn sniðganga lög. Tökum sem dæmi þetta mál þar sem menn ákváðu á síðasta þingi að koma með þá tillögu hreint út að slíta aðildarviðræðum og reyna að fara í gegnum þingið með hana. Þeim tókst það ekki, virtust ekki hafa afl til þess og þá ætla menn bara að gera það fram hjá þinginu og sniðganga þingið með þeim hætti. Fleiri mál gæti maður talið til. Það er rétt hjá hv. þingmanni að óvenjumikið er um þessa umræðu og það er vegna þess að tilefnin eru óvenjumörg. Menn virðast telja eðlilegt að sniðganga löggjöf þar sem oft er búið til skapalón utan um ákvarðanatöku eins og í rammaáætlun, sniðganga hana bara af því að menn vilja sjá einhverja aðra niðurstöðu. Í þessu máli sniðganga menn þingið af því að þeim líkar ekki einhver hugsanleg niðurstaða eða óttast hana. Þetta er mjög mikilvæg athugasemd hjá hv. þingmanni.

Mig langar að nefna eitt af því að við vorum að ræða hvaða mál það gætu verið sem ættu að fara til þjóðarinnar. Ég held að við ættum að gera þetta í auknum mæli og við eigum að gera þetta í stórum málum, t.d. í málum sem snúa að auðlindum okkar. Þar hefur þjóðin reyndar gefið okkur skýr skilaboð í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni, en þá gerist hitt að við erum komin með ríkisstjórn sem vill ekki taka mark á þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst því lýðræðið og staða þess orðin mjög viðkvæm vegna þess að ef við spyrjum þjóðina hvað hún vill gera, spyrjum hana ráða, þá þurfum við líka að gera svo vel (Forseti hringir.) að fara eftir því, sama hvað okkur finnst um niðurstöðuna.