144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að heyra það frá hv. þingmanni sem hefur setið hér allmiklu lengur en ég að það sé óvenjulegt hversu mikil umræða hafi farið í málsmeðferð á þessum vetri. Að sama skapi finnst mér mjög hryggilegt að við séum komin í þá stöðu. En það er ekki bara málsmeðferðin sem er mér áhyggjuefni heldur líka það hversu lítinn þátt almennir, óbreyttir þingmenn stjórnarmeirihlutans taka í umræðum í þingsal. Að mínu viti er það partur af lýðræðinu að við skiptumst á skoðunum héðan úr pontu Alþingis en gerum það ekki bara með því að ýta á takka og greiða atkvæði því umræðan skiptir líka máli. Það geta komið fram ýmis rök, þó svo maður sé ekki sammála þeim, sem geta leitt umræðuna áfram og hjálpað manni til þess annaðhvort að skipta um skoðun eða jafnvel eflast í afstöðu sinni.

Hv. þingmaður nefndi sem dæmi að mál sem ættu heima í þjóðaratkvæðagreiðslu væru þau sem sneru að auðlindum okkar. Ég er hjartanlega sammála því að við hljótum að kalla sérstaklega eftir skoðun þjóðarinnar á þeim málum því auðlindirnar eru ekki einkamál okkar á Alþingi heldur mál okkar allra.