144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Líkt og ég kom inn á í ræðu minni, þó kannski ekki alveg nógu skýrt þar sem ég rakti aðallega aðdraganda og efni þessarar þingsályktunartillögu, er afstaða mín sú að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Sem rök fyrir því af hverju ég er þeirrar skoðunar þá er ég sammála því sem hv. þingmaður sagði, að með inngöngu í Evrópusambandið sé valdið að færast fjær fólkinu, og það er eitt af því sem ég lít til þegar ég mynda mér afstöðu.

Annað sem ég get nefnt sem skiptir mig máli er að mér finnst of mikil hernaðarhyggja ríkjandi innan Evrópusambandsins. Ég mundi vilja nálgast alþjóðamálin með öðrum formerkjum og mér finnst ekki talað nógu sterkt þar máli friðarins. Það er eitt af því sem ég lít til þegar ég móta mér afstöðu. Svo má í þriðja lagi nefna að mér hefur fundist Evrópusambandið of hægri sinnað, til að mynda þegar kemur að viðbrögðum þess við efnahagsþrengingum. Það eru þrjú atriði sem ég vil tiltaka sem ástæðu fyrir því af hverju ég tel að Ísland sé betur komið utan Evrópusambandsins. Nú hreinlega man ég ekki hvort hv. þingmaður var með fleiri spurningar en ég verð þá að svara þeim í síðara andsvari.