144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir á margan hátt áhugaverða og upplýsandi umræðu. Sumt af þessu er auðvitað með sínum hætti endurtekið efni frá því sem áður hefur verið hér í þingsölum en annað varpar betra ljósi á þau mál sem hér eru til umfjöllunar.

Ég held að við getum sagt sem svo, ef við tökum umræðuna frá breiðari sjónarhóli, að hér hafi endurspeglast hversu skiptar skoðanir eru um flesta þætti þessara mála. Afstaðan til Evrópumála er mjög mismunandi eftir flokkum, jafnvel innan flokka, en a.m.k. milli flokka og sú framtíðarsýn sem menn hafa í þeim efnum er afar mismunandi. Ég held að ráða megi það af umræðunni að hér í þinginu, eins og skoðanakannanir gefa líka til kynna meðal þjóðarinnar, er meirihlutaandstaða gegn inngöngu í Evrópusambandið ef það er spurningin sem spurt er. Ég dreg þá ályktun af ummælum þeirra fulltrúa flokka sem hér hafa talað að það sé nokkuð skýrt að í raun og veru sé það fyrst og fremst Samfylkingin og Björt framtíð og þingmenn þeirra flokka sem raunverulega vilja aðild að Evrópusambandinu, þótt ýmsir taki fram að það sé með skilyrðum. Engu að síður tala þessir tveir flokkar með þeim hætti að stefna beri að aðild en 2/3 þingsins tala á annan veg, annaðhvort þannig að menn segjast óráðnir eða einfaldlega andvígir aðild. Þetta er í nokkru samhengi við það sem hefur verið áður, ég hygg að óhætt sé að segja að á síðasta kjörtímabili hafi meiri hluti þings líka verið andvígur inngöngu í Evrópusambandið, enda kom fram að annar stjórnarflokkanna á þeim tíma, sem studdi þó að mestu leyti aðildarumsókn, áskildi sér fullan rétt til að berjast síðan gegn aðild þegar kæmi að lyktum málsins. Skoðanakannanir meðal þjóðarinnar sýna jafnframt að þegar spurt er: Viltu að Ísland verði aðildarríki að Evrópusambandinu? þá er svarið hjá kjósendum í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri ár eftir ár á þann veg að meiri hlutinn er andvígur aðild.

Mótsögnin sem birtist okkur og kannski sá flókni veruleiki er að í skoðanakönnunum á meðal almennings kemur líka fram yfirgnæfandi stuðningur við að halda áfram viðræðum. Það er auðvitað það sem skapar ákveðna pólitíska flækju. Flækjan stafar af því að svo virðist sem talsverður hópur fólks telji að hægt sé með einhverjum hætti að kíkja í pakkann, skoða matseðilinn hjá Evrópusambandinu eða fá Evrópusambandið til að laga sig að Íslandi í viðræðum.

Grundvallarafstaða mín í þessum efnum mótast af því að Evrópusambandið er tiltölulega mjög þekkt stærð og hefur verið um langan tíma. Evrópusambandið þróast vissulega og breytist en það er tiltölulega þekkt stærð og sá sem sækir um aðild að Evrópusambandinu óskar eftir aðild að Evrópusambandinu eins og það er, þykist ég vita. Í raun og veru finnst mér mikil mótsögn fólgin í þeirri gjörð sem ákveðin var af meiri hluta Alþingis sumarið 2009 að sækja um aðild, óska eftir því að hefja aðildarviðræður án þess að vera í raun viss um að vilja ganga inn. Það held ég að sé rótin að mörgum af þeim vandamálum sem við glímum við í þessum efnum, þ.e. að menn í þinginu og víðar í samfélaginu töldu sér trú um að hægt væri að kíkja í pakkann, fara í viðræður án þess að endilega ætla sér að ná niðurstöðu. Það held ég að sé meðal annars rótin að því að málið hefur stöðugt verið í átakafarvegi frá því að haldið var í þennan leiðangur snemma sumars 2009.

Varðandi þá tillögu sem hér liggur fyrir vil ég segja að mér finnst, svo mildilega sé til orða tekið, ótímabært að taka þá ákvörðun sem þar er lagt upp með. Ég er þeirrar skoðunar og reyndar alveg sannfærður um að menn eigi ekki að hefja ferli að nýju, hvort sem við tölum um að verið sé að halda áfram því sem unnið var að á síðasta kjörtímabili eða byrja að nýju, nema menn séu nokkurn veginn klárir á því að þeir ætli sér að ná niðurstöðu. Menn eigi ekki að fara í samningaviðræður nema þeir ætli sér að ná samningum, menn eigi ekki að sækja um aðild að bandalaginu nema menn ætli sér að fara inn í það. Auðvitað getur ýmislegt gert það að verkum að menn sem ætla sér að ná niðurstöðu komast ekki alla leið, það getur gerst. En mér finnst forsendan fyrir því að Alþingi, ríkisstjórn eða hver sem í hlut á hefji ferli af þessu tagi vera sú að hann ætli sér að ná niðurstöðu, hann vilji fara inn í Evrópusambandið. Þess vegna held ég að allar aðgerðir, öll skref sem eru stigin í þessa átt verði feilspor ef menn eru ekki klárir á því að þeir ætli sér að ná niðurstöðu. Ég held þess vegna að þegar aðstæður eru þannig eins og sakir standa að óhugsandi er að meiri hluti myndist á þingi fyrir því að stefna að aðild að Evrópusambandinu sé mjög óábyrgt að fara í atkvæðagreiðslu þar sem gert er ráð fyrir því að haldið sé áfram viðræðum. Ég held að það sé ákveðin forsenda fyrir slíkum viðræðum, verði þær hafnar að nýju, að raunverulegur pólitískur stuðningur sé við það að fylgja ferlinu eftir og ná niðurstöðu. Ég sé ekki að sá meiri hluti myndist í þessum sal eins og hann er nú skipaður og ég á mjög bágt með að ímynda mér að það gerist, jafnvel þótt kosið yrði til þings á morgun. Það var ekki þannig á síðasta kjörtímabili að pólitískur vilji væri til að ganga í Evrópusambandið. Við vitum alveg hvers vegna refirnir voru skornir að því leyti. Það að tillaga um að senda inn aðildarumsókn var samþykkt á þinginu 16. júlí 2009 stafaði ekki af því að meiri hluti þingsins styddi það að við færum inn í Evrópusambandið. Það var ekki þannig. Það kom skýrt fram í máli fjöldamargra úr röðum Vinstri grænna að þeir litu ekki svo á.

Þess vegna held ég að til þess að einhver alvara sé í þeirri atburðarás sem ætlunin er að setja í gang með þeirri tillögu sem hér er lögð fram og það geti skilað einhverri niðurstöðu þurfi hinn pólitíski stuðningur við þá stefnu að ganga eigi í Evrópusambandið að vera miklu skýrari og sterkari en nú er. Þess vegna held ég að þegar menn skoða tillögu af þessu tagi — allt í lagi, þetta er tillaga um ákveðið skref, þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðum — þurfi þeir að velta fyrir sér: Og hvað svo? Sjá menn í alvöru, svo ég varpi þeirri spurningu út í sal, eitthvert vit í því fyrir þingmeirihluta eða ríkisstjórn, og þá er ég ekki bara að tala um þá ríkisstjórn sem nú situr heldur aðrar hugsanlegar stjórnir sem gætu tekið við, að vera í viðræðuferli þar sem þarf að taka ákvarðanir á ýmsum stigum málsins, pólitískar ákvarðanir sem miða að því að koma okkur inn í Evrópusambandið, ef menn hafa ekki pólitíska sannfæringu fyrir því að þangað beri að stefna? Er eitthvert vit í því?